„Með því að afnema fjöldatakmarkanirnar opnast leigubílamarkaðurinn fyrir nýjum þjónustuveitendum og farveitum á borð við Lyft og Uber. Tölur frá Svíþjóð, Kanada og Amsterdam benda til að þjónusta Uber sé töluvert ódýrari en þjónusta hefðbundinna leigubíla. Léttleyfum eins og það sem við teflum fram gæti þar að auki fjölgað í hópi þeirra sem bjóða leigubílaþjónustu á álagstímum, svo sem um helgar, og þannig lækkað kostnað og stytt biðtíma. Það gæti sérstaklega gagnast þeim sem eiga bíl en hafa litlar tekjur og vilja drýgja þær með einhverju móti,“ segir Ásta Fjeldsted, framkvæmdastóri Viðskiptaráðs.

Í umsögn Viðskiptaráðs, sem birt var í gær á samráðsgátt Stjórnarráðsins vegna fyrirhugaðs frumvarps um breytingar á lögum um leigubíla, er lagt til að gefin verði út léttleyfi fyrir leigubílaakstur á Íslandi, sem svipi til skammtímaleyfa sem gefin hafa verið út fyrir heimagistingu. Léttleyfakerfið verði til staðar samhliða hefðbundnum leigubílaakstri.

Þá er bent á að ódýrari leigubílaþjónusta gæti verið til þess fallin að fleiri nýttu sér almenningssamgöngur, þar sem hagstæðara verði að hætta rekstri eigin bifreiða.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .