Íslenska sjávarafurðafyrirtækið Niceland Seafood – sem stofnað var af bandaríska fjárfestinum Oliver Luckett ásamt Heiðu Kristínu Helgadóttur í fyrra – hefur gert samning við matvöruverslunarkeðjurnar King Soopers og City Market um sölu á íslenskum fisk í samtals 65 búðum í Colorado-fylki. Þá hefur fyrirtækið ráðið til sín fjögurra manna söluteymi í Bandaríkjunum. Fiskifréttir sögðu frá málinu á laugardag .

Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um í september felst viðskiptahugmynd Niceland Seafood í að markaðssetja íslenskan fisk sem holla, próteinríka fæðu úr hreinu, sjálfbæru og mannvænu umhverfi.

Í því skyni er fiskurinn rekjanlegur alveg frá því hann er veiddur og þar til hann endar í höndum viðskiptavinarins, en hann getur skannað svokallaðan QR-kóða á pakkningunum með snjallsíma og þannig fengið upplýsingarnar.

„Við erum afar spennt fyrir samstarfinu við King Soopers, og ánægð að ályktanir okkar, að neytendum sem vilji heilsusamlegan mat sé annt um fólkið og staðina á bak við matinn þeirra, hafi reynst á rökum reistar,“ er haft eftir Luckett í frétt PR Newswire um málið .

Niceland Seafood er í eigu eignarhaldsfélagsins EFNI og fjárfestingafélagsins Eyris invest, sem auk þess á þriðjung í EFNI, á móti Heiðu og Luckett.