Sturla Eðvarsson framkvæmdastjóri Smáralindar segir niðurfellingu tolla hafa stór áhrif á að fatabúðin vinsæla H&M hefur ákveðið að opna hér á landi.

Íslendingar versla mest í H&M

Íslendingar versluðu mest í verslunum sænsku keðjunnar af öllum fatabúðum á fyrsta ársfjórðungi ársins, en hingað til hefur engin verslun hennar verið hér á landi.

Stefnt er að opnun verslunar Hennes & Mauritz seinni part næsta sumars í Smáralindinni, auk líklega annarrar verslunar árið 2018 á Hafnartorgi í miðbæ Reykjavíkur.

Tollaniðurfelling stóra málið

„Stóra málið er niðurfelling tolla og gjaldeyrishöftin spiluðu einnig þarna inn. Þetta er ekki einkaleyfisverslun, þeir reka allar sínar verslanir út um allan heim,“ segir Sturla í viðtali við Fréttablaðið .

„En það eru ýmis atriði sem hafa áhrif á það hvort þeir koma eða ekki. Það er hins vegar ekki hægt að alhæfa að það sé eitt frekar en annað.“

Hagvöxtur meiri hér á landi

Jafnframt bendir hann á jákvæð merki í íslensku atvinnulífi.

„Hagvöxtur er hér meiri en gengur og gerist í kringum okkur og gríðarleg fjölgun ferðamanna hafði auðvitað eitthvað að segja, en þessir aðilar eru að horfa lengra fram í tímann en akkúrat núna,“ segir Sturla.

„Þau eru mjög ánægð með þau metnaðarfullu áform sem Smáralind er í núna og uppbyggingu í miðbæ Reykjavíkur sem Reginn tekur líka þátt í.“