Nikkei 225 hlutabréfavísitalan í Japan stendur nú í 22.937,60 stigum, eftir 1,73% hækkun á mörkuðum í dag, en markaðir lokuðu þar tæpum þremur klukkutímum síðan. Hefur gengi bréfa í kauphöllinni í Japan ekki verið svona hátt síðan í janúar árið 1992, en vísitalan hefur hækkað í 16 daga í röð, sem er lengsta hækkunartímabil sögu vísitölunnar.

Síðan 9. september nemur hækkunin 19%, en kosningasigur Shinzo Abe forsætisráðherra ásamt góðum afkomutölum fyrirtækja og veikara yeni hefur knúið hækkunina áfram að því er Bloomberg greinir frá.

Síðast þegar Nikkei vísitalan náði þessum tölum var George Bush eldri við völd í Bandaríkjunum, og Japan var að stefna inn í langvarandi verðhjöðnunartímabil, með hraðri lækkun á verði á landi. Nú eru hins vegar erlendir fjárfestar að flykkjast til landsins, en 61% fyrirtækjanna í kauphöllinni hafa verið að skila afkomutölum sem fóru fram úr væntingum greinenda.

Þar með talið hækkaði hlutabréfaverð Sony um 11% eftir að það hækkaði afkomuspár sínar upp í metfjárhæðir. Einnig hækkaði Honda bílaframleiðandinn um 5,2% eftir hækkun á sínum afkomuspám.