Allir nýir stórnotendur raforku hjá Landsvirkjun hafa þurft að greiða á hærra verðbili en fjórir fyrstu viðskiptavinir fyrirtækisins. Stefnt að því að klára að endursemja við þá flesta eldri fyrir árslok.

Á ársfundi Landsvirkjunar sem haldin var á dögunum fór Hörður Arnarson, forstjóri félagsins, í ávarpi sínu eilítið yfir síðasta rekstrarár, en fram hafði komið í erindi Jónasar Þórs Jónassonar áður að um metár hafi verið að ræða hjá félaginu í bæði tekjum og seldu orkumagni. Hörður fagnaði sérstaklega að árið hefði verið slysalaust í framkvæmdum félagsins á sama tíma og tveimur stórum áföngum hefði verið náð með gangsetningu nýrrar aflstöðvar félagsins, Búrfellsstöðvar 2 sem og annars áfanga aflstöðvarinnar á Þeistareykjum.

Hörður tók undir með því sem Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ráðherra sagði í opnunarræðu sinni á ársfundinum að það hafi verið framfaraskref að komið var á virkri samkeppni í raforkusölu og framleiðslu hér á landi með upptöku fyrstu orkupakka ESB í lög árið 2003. Hörður tók það þó fram að löggjöfin um orkumál væri ekki gallalaus og sníða þyrfti af agnúa í henni.

En jafnframt að kerfið væri betra hér, þar sem dreifing væri aðskilin frá framleiðslu og sölu, heldur en til að mynda í Bandaríkjunum sem hann kallaði óskynsamlegt, enda oft raflagnir lagðar hlið við hlið hvort frá sínu orkufyrirtækinu. Líkti hann því kerfi við það sem viðgengst á fjarskiptamarkaði þar sem hvert félag væri að byggja upp eigið dreifikerfi, oft með lagningu ljósleiðara hlið við hlið.

Mest púður í ræðu forstjórans fór þó í aðra breytingu sem kom með nýju orkulöggjöfinni, en það er að samningar við stórnotendur, helstu viðskiptavini Landsvirkjunar, væru komnir í eðlilegt viðskiptaumhverfi með hærra orkuverði. Sagði hann það jafnframt hafa verið skynsamlegt skref, þó vissulega hafi það verið réttlætanlegt á sínum tíma þegar kerfið var byggt upp að horfa einnig til afleiddra starfa í kringum virkjanirnar og orkuiðnaðinn.

„Á þeim tíma, þegar menn byggðu upp raforkuverðið með mjög framsýnum hætti, þá var líka horft til þess að virkjanirnar og fyrirtækin gerðu meira en að skapa tekjur, heldur að þau sköpuðu störf og sköpuðu skatttekjur,“ sagði Hörður en á þeim tíma hafi það verið algerlega heimilt, og hefði tíðkast víðar, og tók Noreg og Kanada sem dæmi um sambærileg lönd.

„Þessi stefna virkaði mjög vel á þessum tíma, hún gerði það að verkum að við eigum þetta öfluga flutningskerfi og eigum þessa öflugu viðskiptavini. En síðan urðu þessar breytingar árið 2003, viðskiptaumhverfi orku í heiminum gjörbreyttist, hvað þessir aðilar voru að borga annars staðar gjörbreyttist, og virkjanakostir sem við höfðum kost á urðu líka dýrari. Það gerir það að verkum að frá þessum tíma hefur Landsvirkjun stefnt á hærra verð. Í eldri stefnunni voru menn að semja um svona 15 til 25 dollara á teravattstundina, á meðan frá þessum tíma höfum við verið að semja um á bilinu 30 til 45 dollara, í raforkuverði án flutnings.“

Hækkunin ekki náð til heimila

Hörður tók þó skýrt fram að það þýddi ekki að raforkusala fyrirtækisins inn á heildsölumarkaðinn, sem er eini hluti hennar sem fer til heimila í landinu og smærri fyrirtækja, hefði sótt, eða leitt, hækkanir á raforkuverði. Vísaði hann þar í skýrslu verkfræðistofnunar Eflu um þróun orkuverðs á Íslandi til þessara aðila frá setningu nýju löggjafarinnar.

„Í grundvallaratriðum kemur þar fram að hlutur Landsvirkjunar í heildartekjum af orkusölu til heimila er 12%, þannig að það er alveg ljóst að Landsvirkjun er ekki ráðandi í því hvernig raforkureikningur heimilanna þróast, það er miklu frekar hvernig dreifingarkostnaðurinn á raforkunni þróast,“ sagði Hörður.

Hins vegar sagði Hörður Landsvirkjun hafa verið ráðandi í verðinu á markaðnum til stórnotenda, og þar hafi félagið eins og áður sagði markvisst stefnt að því að fá það sem hann kallar sanngjarnt verð fyrir raforkuna. Þá meinar hann verð sem sé sambærilegt og í öðrum löndum. Sagði hann jafnframt að hækkunin væri í beinu samhengi við meiri kostnað við uppbyggingu orkumannvirkja nú, sem væri einnig um 30 til 40 Bandaríkjadalir á megavattstundina samanborið við kostnað við síðustu þrjár virkjanir félagsins. En einnig sambærilegt við það sem gengur og gerist í þeim löndum sem við viljum hér bera okkur saman við.

„Þetta er auðvitað ferðalag, en við höfum smám saman verið að semja við nýja viðskiptavini, vorum þarna 2003 með fjóra viðskiptavini, núna erum við með tíu. Öll viðbótin hefur komið inn á þessum nýju verðum, og síðan höfum við verið að endursemja við þessa gömlu viðskiptavini á verðum sem eru innan þessara marka sem við horfum til í dag. Við bindum vonir við að í árslok verði 9 af þessum 10 viðskiptavinum komnir yfir í þetta nýja verðumhverfi.“

Nánar má lesa um málið í sérblaði Viðskiptablaðsins, Orku og iðnaði. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .