Framtakssjóðurinn Umbreyting sem er í rekstri Alfa framtaks hóf starfsemi árið 2018 og hefur nú fjárfest 56% af sjö milljarða hlutafjárloforðum sjóðsins. Að sögn Gunnars Páls Tryggvasonar, framkvæmdastjóra Alfa framtaks, mun sjóðurinn ráðast í 2–3 fjárfestingaverkefni til viðbótar á fjárfestingartímabili hans sem er nú hálfnað.

Þrátt fyrir að framtakssjóðurinn sé ekki ýkja gamall nær saga Alfa framtaks töluvert lengra aftur. Fyrirtækið var stofnað undir nafninu Icora Partners árið 2010 af Gunnari og Friðriki Jóhannssyni. Áður en Gunnar stofnaði fyrirtækið starfaði hann hjá Kaupþing Singer & Friedlander í London, fyrst í fyrirtækjaráðgjöf og síðar við framtaksfjárfestingar (e. private equity).

Árið 2018 urðu vatnaskil í rekstri fyrirtækisins þegar það setti framtakssjóð   á laggirnar auk þess sem nafninu Icora Partners var breytt yfir í Alfa framtak. Spurður hvað hafi orðið til þess að fyrirtækið fór úr því að sinna fyrirtækjaráðgjöf yfir í framtaksfjárfestingar segir Gunnar að ákveðin tækifæri hafi verið til staðar sem fyrirtækið vildi grípa.

„Við sáum tækifæri í að fá með okkur breiðan hóp fjárfesta til að fá aðeins meiri blöndu í fjármagnið með því að safna fjármunum hjá öflugum einkafjárfestum en við erum með margt af færasta viðskiptafólki landsins í hluthafahóp sjóðsins. Þetta eru 25 einstaklingar, þrír lífeyrissjóðir, tvö tryggingafélög og einn eignastýringarsjóður. Því til viðbótar hafa allir starfsmenn og stjórnarmenn sjóðsins fjárfest í sjóðnum. Um 56% af fjármagni sjóðsins koma frá einstaklingum.

Við vorum svo sem ekki að hugsa meðvitað um einhver ákveðin hlutföll fyrir utan að við vildum hafa breytt bakland og töldum að það væri hagur af því að fá öfluga einstaklinga með þekkingu sem fjárfestar og rekstrarreynslu. Við finnum virkilega fyrir því hvað það er jákvætt að geta leitað til þessara aðila þegar við á. Það nýtist bæði okkur og fyrirtækjunum sem við höfum fjárfest í,“ segir Gunnar.

Fyrir utan breitt eignarhald er framtakssjóður Alfa með virka nálgun á eigendahlutverkið og   fjárfestir oftast sem meirihlutaeigandi og beitir sér markvisst fyrir virðisaukningu fyrirtækjanna.

„Við teljum að mest virði skapast þegar það er virkt samband milli eigenda og stjórnenda og góð samvinna við að byggja upp virði í fyrirtækjunum. Við viljum þá koma að sem virðisaukandi fjárfestir en ekki með hlutlaust fjármagn.

Við munum eiga hverja fjárfestingu í 4–6 ár og því er áríðandi að árangur náist á því tímabili. Við komum því með ákveðið „sense of urgency“. Það er oft þannig hjá fyrirtækjum sem hafa verið með óbreytt eignarhald í töluverðan tíma að þá verða breytingarnar milli ára 13 og 14 ekkert rosalega miklar samanborið við okkar tíma sem er 4–6 ár. Að þeim tíma loknum viljum við skilja við fyrirtækin í betra ástandi en þegar við keyptum þau og þannig skilja eftir okkur jákvæð fótspor í viðskiptalífinu.

Til þess þarf að vera sett skýr áætlun um hvernig við ætlum að ná þeim árangri sem við setjum saman með stjórn og stjórnendum. Þetta verður því ákveðin vítamínsprauta inn í fyrirtækin og markmiðið með þessari nálgun er við verðum fyrsta val stjórnenda og athafnafólks þegar verið er að velja samstarfsaðila í verkefni.“

Blása til sóknar

Gunnar segir að fyrirtækin sem fjárfest er í eigi það sameiginlegt að vera góð fyrirtæki sem hægt sé að gera enn betri.

„Við hjá Alfa segjum oft að nógu gott sé óvinur frábærs. Oft er eitthvað einungis gert í málunum þegar hlutirnir eru orðnir mjög slæmir. Við fjárfestum ekki í viðsnúningsverkefnum heldur umbreytingarverkefnum. Við erum ekki að taka félag sem er í miklum vandræðum og er að skila tapi og snúa því við þar sem við teljum það of áhættusamt miðað við þá starfsemi sem við erum í.

Það sem gerist oft er að þegar fyrirtæki eru að malla áfram þá vantar oft drifkraftinn til þess að gera hlutina frábæra. Kosturinn við okkar nálgun er að við höfum fengið innsýn inn í ótrúlega mörg fyrirtæki í mörgum mismunandi geirum, séð margt sem hefur gengið vel eða illa og getum því miðlað því auk þess að geta dregið á reynslu frá okkar baklandi með þann fókus að aðstoða þau fyrirtæki sem við fjárfestum í til að verða ennþá betri.“

Nánar er rætt við Gunnar í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .