Norðlenska matborðið ehf., eitt stærsta framleiðslufyrirtæki landsins á sviði kjötvöru, tapaði tæplega 35 milljónum króna á síðasta ári, samanborið við 66,5 milljóna tap árið 2018.

Rekstrarhagnaður félagsins nam 64 milljónum, samanborið við 24 milljónir árið áður. Rekstrartekjur námu 5,2 milljörðum, þar af komu 4,8 milljarðar frá innlendri vörusölu og 350 milljónir frá útflutningi, og jukust um rúmlega 29 milljónir milli ára. Rekstrarkostnaður nam rúmum 5 milljörðum. Laun og launatengd gjöld voru 1,4 milljarðar á síðasta ári en meðalfjöldi stöðugilda var 181 talsins.

Eignir Norðlenska námu 2,9 milljörðum í árslok 2019 og lækkuðu um ríflega 130 milljónir milli ára. Eigið fé var 601 milljón og skuldir 2,3 milljarðar. Eiginfjárhlutfall félagsins í árslok var því 20,7%.

Framkvæmdastjóri Norðlenska er Ágúst Torfi Hauksson. Eigandi Norðlenska er Búsæld, félag kjötframleiðenda í Eyjafirði, Þingeyjarsýslum og á Austur- og Suðausturlandi.