Nú hefur Norður-Kórea endurræst kjarnorkuver sitt í Yongbyon. Þegar kjarnorkuverið framleiðir raforku notast það við kjarnahvörf, en við hvörfin myndast frumefnið plútóníum sem aukaafurð.

Plútóníum er hægt að nota sem efni í kjarnorkusprengju - en það þarf aðeins um fjögur kílógrömm af efninu geislavirka til þess að gera sprengju með afl upp á 20 kílótonn. Markmið Norður-Kóreu er að mati sérfræðinga að hanna og koma á laggirnar kerfi langdrægra eldflauga sem búnar eru með kjarnorkuoddum. Þetta gerir her þjóðarinnar í þeim tilgangi að ógna Bandaríkjunum.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um áður hefur Norður-Kórea sagst hafa gert tilraunir með vetnissamrunasprengju, en slíkt vopn hefur gífurlegan sprengikraft. Sérfræðingar eru þó ósammála um hvort einræðisríkið hafi raunverulega bolmagn til þess að hanna og framleiða slík sprengiefni.