Norræna kauphallasamstæðan Nasdaq OMX Nordic tók á fyrri helmingi ársins fram úr kauphöllinni í Lundúnum sem stærsti markaður Evrópu varðandi fjölda nýskráninga og markaðsvirði nýskráðra félaga. 39 félög voru skráð á markað í Lundúnum á fyrri helmingi ársins á meðan 47 félög voru skráð á Norðurlöndunum, þar af 35 í Svíþjóð.

Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar á Íslandi, segir það mikil tíðindi að fleiri nýskráningar hafi átt sér stað á Norðurlöndunum en í bresku höfuðborginni sem gjarna er nefnd fjármálamiðstöð Evrópu. Hann segir mikinn uppgang hafa verið á Norðurlöndunum undanfarin ár og þá sérstaklega í Stokkhólmi. Þar taki sterkir stofnanafjárfestar og almenningur virkan þátt í markaðnum og að auki sé mikið um fjárfestingar frá stórum erlendum aðilum.

Vilja nýta meðbyrinn

„Það hefur verið að koma inn mikill fjöldi erlendra stofnanafjárfesta, bæði frá meginlandi Evrópu og Bandaríkjunum, og þessir fjárfestar standa að baki meirihluta viðskipta á þessum mörkuðum,“ segir Páll í samtali við Viðskiptablaðið. Hann vonast eftir því að með losun hafta muni erlendir stofnanafjárfestar renna hýru auga til Íslands.

„Með slökun hafta vonumst við til að ná þeim inn í auknum mæli og nýta þennan meðbyr sem hinar Norðurlandaþjóðirnar hafa náð að þessu leyti. Ég tel ágætis horfur á að við náum að njóta þessa árangurs að einhverju marki,“ segir Páll. Bendir hann á að allar kauphallir Nasdaq á Norðurlöndunum séu með sameiginlegt viðskiptakerfi og fjárfestar sem stunda viðskipti á hinum Norðurlöndunum hafa því góða yfirsýn yfir íslenska markaðinn.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.