Seðlabankastjórar á Norðurlöndunum krjúpa á kné og biðja til guðs um aðstæður sem geti gert þeim kleift að vera með íslenska vexti. Þetta sagði Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, á peningamálafundi Viðskiptaráðs í umræðu um hátt vaxtastig á Íslandi en hann uppskar mikinn hlátur fundargesta með orðum sínum.

Ummæli Más voru í framhaldi af spurningu Katrínar Olgu Jóhannesdóttur um hvort það væri ekki tækifæri á frekari lækkun vaxta hjá Seðlabankanum. Vildi Már meina að vextir á Vesturlöndum væru alla jafna óvenjulega lágir sem gæti skapað bjagaða hvata sem hann heyrði á samtölum sínum við seðlabankastjóra á Norðurlöndum að yllu áhyggjum.

Már sagði einnig á fundinum að peningastefnan hefði skilað árangri og framleiðsluspenna hefði náð hámarki. Að grunnspá Seðlabankans gerði ráð fyrir því að verðbólga gæti hækkað á næsta árinu en yrði innan vikmarka og jafnvel alveg við verðbólgumarkmið.