Hvalaskoðunar- og ferðaþjónustufyrirtækið Norðursigling á Húsavík skilaði tapi upp á 102 milljónir króna en þetta er annað rekstrarárið í röð sem afkoma félagsins er neikvæð. Í tilkynningu frá félaginu er tapið að stórum hluta tilkomið vegna kostnaðarauka í fjárfestingum utan kjarnastarfsemi félagsins á liðnum árum.

„Breytingar urðu á hluthafahópnum í fyrirtækinu á síðasta ári og í kjölfarið hefur Norðursigling breytt áherslum sínum og má nefna að félagið hefur hætt rekstri veitingastaða á Húsavík og Hjalteyri og lagt niður dótturfélag sitt í Noregi,“ segir í tilkynningunni.

Grænlandsstarfsemi félagsins hafi hins vegar gengið vel en áform eru um að færa starfsemina á Grænlandi í sérstakt félag. Þetta yrði gert „í anda þess að skerpa sýnina á kjarnastarfsemi félagsins er til skoðunar að færa hana í sér félag í samvinnu við fleiri aðila sem bjóða upp á afþreyingarferðir á Grænlandi.“

Markmiðið með þessum aðgerðum yrði að draga úr áhættu og auka arðsemi. „Önnur verkefni hafa gengið vel. Þannig er Norðursigling frumkvöðull í stofnun Sjóbaðanna á Húsavík (GeoSea) og jafnframt stærsti hluthafinn. Aðsókn í Sjóböðin hefur verið mjög góð frá opnuninni fyrir ári síðan og gefur góð fyrirheit um framtíðina. Megináhersla eftir þessa endurskipulagningu er á kjarnastarfsemi, sem er hvalaskoðunarsiglingar á Skjálfanda og á Hjalteyri þar sem félagið hefur sterka stöðu. Endurskipulagning á rekstri félagsins er þegar farin að skila árangri. Þrátt fyrir erfitt veðurfar á Norðurlandi í sumar hefur afkoman það sem af er á árinu 2019 stórbatnað frá árinu 2018.“

Haft eftir Valdimari Halldórssyni, framkvæmdastjóri Norðursiglingar að eftir erfið ár þar sem vöxtur Norðursiglingar hafi verið of hraður utan kjarnastarfsemi hafi tekist að snúa rekstrinum til betri vegar. „Áfram munum við leggja áherslu á aðhald í rekstri með áherslu á okkar kjarnastarfsemi á Húsavík. Við teljum að samgöngubætur á okkar svæði á Norðausturhorninu, t.a.m. með tilkomu Vaðlaheiðarganga og nýjum uppbyggðum Dettifossvegi muni leiða til þess að ferðaþjónusta á okkar starfssvæði geti blómstrað á komandi árum.“