Norsk stjórnvöld hafa skipt um skoðun og hyggjast nú styðja við norska flugfélagið Norwegian, að því gefnu að félaginu takist að afla sér 4-5 milljarða norskra króna, um 60-76 milljarða íslenskra króna, af nýju hlutafé.

Norsk stjórnvöld tilkynntu í nóvember að þau ætluðu sér ekki að styðja Norwegian frekar en þau gengust í ábyrgð fyrir 3 millarða norska króna lán Norwegian, jafnvirði um 46 milljarða íslenskra króna í maí, sem hluti af fjárhagslegri endurskipulagningu félagsins þá.

Sjá einnig: Keppinautur Icelandair hættir Ameríkuflugi

Iselin Nyboe, viðskiptamálaráðherra Noregs, segir að áætlun Norwegian um niðurskurð og endurskipulagningu sé mun trúverðugri en sú sem kynnt var í nóvember, að því er AP greinir frá.

Jacob Schram, forstjóri Norwegian, segir að vilyrðið um ríkisaðstoð muni auðvelda félaginu til muna að afla sér nýs hlutafjár. Norwegian stefnir einnig að því að lækka skuldir félagsins um 20 milljarða norska króna, jafnvirði um 300 milljarða íslenskra króna.

Sjá einnig: Greiðsluþrot blasir við Norwegian

Norwegian kynnti í síðustu viku mikil niðurskurðaráform. Fækka á flugvélum úr 140 í 50 og hætta flugi utan Evrópu. Ameríkuflug Norwegian átti á síðustu árum mikinn þátt í að þrýsta niður verði á flug yfir Atlantshafið, sem hafði neikvæð áhrif á íslensku flugfélaganna Icelandair og Wow air.

Dómstóll á Írlandi þarf að samþykkja áætlunina en dótturfélög Norwegian eru í greiðslustöðvun þar í landi.