Stærsti óháði hluthafinn í Volkswagen, Norski olíusjóðurinn, hefur minnkað eins milljarða evra eignarhlut sinn í þýska bílframleiðandanum um helming. Frá þessu er greint í Financial Time s þar sem ástæða sölunnar er sögð áratuga deilur um stjórnunarhætti innan fyrirtækisins og skandalinn varðandi falsaðar niðurstöður í mengunarmælingum á díselbílum félagsins. Eignarhlutur olíusjóðsins var 1,32% í lok árs 2017 en er nú 0,77% samkvæmt tölum um hlutafjáreignir sjóðsins, sem birtar voru í vikunni, en þetta er í fyrsta sinn sem sala hlutanna er gerð opinber.

Norski olíusjóðurinn, sem er stærsti þjóðarsjóður heims (e. sovereign wealth fund) með yfir trilljón dollara í eignastýringu,  hefur verið stærsti sjálfstæði hluthafinn með atkvæðisrétt síðastliðin sex ár. Stærstu þrír eigendurnir – Porsche-Piech fjölskyldan, sambandslandið Saxland og Qatar – fara með nær 90% af atkvæðishlutum félagsins og skipa því í öll stjórnarsæti. Deilur olíusjóðsins og yfirstjórnar Volkswagen hafa náð slíkum hæðum að sjóðurinn hefur nokkrum sinnum tjáð opinberlega óánægju sína með framkvæmdastjórnin.

Meðal ágreiningsefna er óánægja olíusjóðsins er sú staðreynd að af 20 stjórnarmönnum Volkswagen er aðeins einn sem er ótengdur félaginu og helstu eigendum þess. Þá er Norski olíusjóðurinn meðal þeirra sem kært hafa bílaframleiðandann fyrir dísel-skandalinn. Þá gagnrýndi einnig sjóðurinn samruna Volkswagen og Porsche í einu af örfáum bréfum sem sjóðurinn hefur sent frá sér opinberlega. Í bréfinu var ýjað að því að samruninn væri ekki gerður með hagsmuni hluthafa að leiðarljósi heldur fyrst og fremst fyrir Porsche-fjölskylduna.

Að sögn FT vildi Yngve Slyngstad, framkvæmdastjóri Norska olíusjóðsins, ekki tjá sig um málið við blaðið enda sé það stefna sjóðsins að tjá sig ekki um einstakar fjárfestingar.