Norska flugfélagið Norwegian hefur gripið til þess ráðs að safna auknu hlutafé, selja hluta af flugvélaflota sínum auk þess að bjóða hlut af þjónustu sinni til sölu vegna aukins taps. Gengi bréfa félagsins hefur lækkað um 2,43% það sem af er viðskiptadegi þegar þetta er skrifað.

Tilkynnti félagið um þetta samhliða því að fyrirtækið tilkynnti um aukið tap í rekstri á fyrsta ársfjórðungi þessa árs. Segir félagið 12% hærra eldsneytisgjald en áætlanir gerðu ráð fyrir ásamt sterkari evru ástæðu aukins taps að því er fram kemur á vef Dagbladet . Nam tapið 2,6 milljörðum norskra króna á ársfjórðungnum, eða sem nemur 33,6 milljörðum íslenskra króna, en tekjur tímabilsins námu 7,1 milljarði norskra króna.

Hyggst félagið safna 1,3 milljörðum norskra króna, eða sem samsvarar um 16,5 milljörðum íslenskra króna í aukið hlutafé ásamt því að selja fimm af Airbus 320 neo flugvélum sínum. Jafnframt hefur dótturfélag Norwegian samið um sölu og endurleigu á sex vélum til viðbótar, en heildarfloti félagsins er um 150 vélar.

Félagið stendur nú frammi fyrir vaxtarverkjum eftir gríðarlegt vaxtatímabil sem hafi jafnvel ógnað lággjaldaflugfélaginu Ryanair að því er FT segir frá. Flugfélagið býður meðal annars upp á flug milli Evrópu og Bandaríkjanna, Asíu og Argentínu í Suður Ameríku, en félagið flýgur til að mynda til Íslands frá Noregi, Svíþjóð, Bretlandi og Spáni.