Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra segir að til séu dæmi um að hryðjuverkamenn hafi flutt peninga til Íslands með þeim tilgangi að þvætta þá hér. Segir ráðherrann peningana svo vera notaða til vopnakaupa. Þetta sagði Benedikt í Síðdegisútvarpinu á Rás 2 þar sem rætt var um tillögur starfshóps um aðgerðir gegn skattsvikum og peningaþvætti.

Sagði Benedikt að fyrir utan skattsvikin þá sé einnig verið að ræða um hættulega glæpastarfsemi, eiturlyfjasölu og hryðjuverkastarfsemi. „Okkur finnst það svolítið fjarlægt en það hefur komið í ljós að það hafa komið upp dæmi þar sem menn halda að það sé verið að senda peninga til Íslands til þess að þvo þá og gera þá heiðarlega til að menn geti nýtt þá í vopnakaup og annað í hryðjuverkum. Það er mjög mikilvægt að ná tökum á þessu.“

Í framhaldinu spurði Guðmundur Pálsson, annar stjórnenda Síðdegisútvarpsins hvort ráðherrann vissi virkilega um dæmi um þetta.

Svaraði Benedikt því til að hann þekkti auðvitað ekki neina hryðjuverkamenn, en að menn teldu að þetta hafi verið reynt. „Þetta er auðvitað mjög erfitt við að eiga. Það er mjög viðamikil glæpastarfsemi sem þrífst, sem við sem betur fer, sem erum á yfirborðinu, verðum lítið vör við.“