Hugbúnaðarfyrirtækið Klappir hefur vaxið jafnt á síðastliðnu einu og hálfu ári ári. Félagið hefur undanfarin fimm ár þróað stafrænar lausnir á sviði umhverfismála sem miða að því að lágmarka vistspor. Á síðasta ári fjölgaði notendum hugbúnaðarins um 72%. Klappir eru nú með yfir 300 íslenska hlutahafa, og rúmlega fjögur þúsund notendur í yfir 20 löndum nýta lausnir félagsins. Klappir voru skráðar á First North markað Nasdaq á Íslandi árið 2017.

„Við erum afar ánægð með þann árangur sem hefur náðst að undanförnu og nýjum notendum hefur fjölgað hratt. Lausnirnar sem við höfum þróað mynda einstaka samverkandi heildarlausn á sviði umhverfismála á Íslandi. Með hugbúnaðinum geta fyrirtækir og stofnanir lágmarkað vistspor sitt, tryggt fylgni við umhverfislöggjöf hverju sinni og sýnt fram á árangurinn með því að nota stafræna tækni til að halda grænt bókhald. Á sama tíma er hægt að draga úr rekstrarkostnaði. Stafrænar lausnir okkar styðja við aðgerðir ríkisstjórnarinnar í loftlagsmálum og Stafrænt Ísland á mörgum sviðum,“ segir Jón Ágúst Þorsteinsson, forstjóri Klappa.

Jón segir að hlutafé Klappa hafi verið aukið í lok síðasta sumars og sjóðstaða félagsins sé góð.

„Við höfum unnið að því að styrkja þjónustuframboð og hugbúnaðarlausnirnar þannig að þær geti mætt nýjum þörfum markaðarins. Lögum og reglugerðum á sviðið umhverfismála fjölgar stöðugt og hratt á alþjóðavísu og það er mikilvægt að hugbúnaður Klappa endurspegli þá þróun. Notendum fjölgaði um 72% á milli ára eða úr 2.328 árið 2019 í fjögur þúsund notendur á síðasta ári. Notendur í yfir 20 löndum nýta nú lausnir okkar og það er mjög ánægjulegt,“ segir Jón.

Tekjur vegna hugbúnaðaráskrifta Klappa hækkuðu um 8,7% á milli ára og EBITDA af reglulegri starfsemi var 25,1 milljón króna. Eigið fé félagsins nemur að sögn Jóns samtals 414,7 milljónum króna og heildareignir 484,5 milljónum króna.

„Við munum áfram leggja áherslu á að styrkja innviði félagsins, efla markaðssetningu og dreifingu á lausnum félagsins bæði hér heima sem og á alþjóðamörkuðum,“ segir Jón.

Hann segir að uppbygging á stafrænni tækni fyrir umhverfismál sé mjög brýnt og Klappir hafi unnið að því að auka og efla umhverfisvitund inn í atvinnulífið á Íslandi. Hann segir það skapa mikil verðmæti fyrir samfélagið. „Við Íslendingar erum í dauðafæri að ná góðum árangri í umverfis- og samélagsmálum í nánustu framtíð.“

Græna hagkerfið fer ört stækkandi

Jón nefnir að íslensk fyrirtæki, sveitafélög og stofnanir sé nú að auka mjög nýtingu á þessum stafræna lausnarpalli.

„Eða vistkerfi eins og við köllum hugbúnaðinn okkar. Umhverfis- og loftlagsmál koma til með að vega sífellt þyngra í rekstri og því er mikilvægara en áður að halda sérstakt grænt bókhald utan um umhverfis- og samfélagsáhrif fyrirtækja, sveitarfélaga og ríkisstofnana. Þau sem hafa náð að sinna þessu vel spara umtalsverðar fjárhæðir þegar þau hafa tekið umhverfismálin föstum tökum. Græna hagkerfið fer ört stækkandi og félög sem eru með allt í góðum málum hjá sér munu fá meiri velvild hjá lánastofnunum og fjárfestum heldur en þau félög sem eru ekki að sinna umhverfismálum og láta þau mæta afgangi. Fyrirtæki verða að sýna fram á ábyrga umhverfisstefnu og að þau séu að vinna í átt að sjálfbærni Með notkun á stafrænni tækni má stuðla að því að vistkeðja fyrirtækja verði sjálfbærari,“ segir Jón.