Nýjasta "hótel" landsins opnaði fyrr í mánuðinum í Stífludal í Fljótum í Skagafirði. Hótelið nefnist Deplar eftir samnefndum sveitabæ í dalnum. Það er staðsett við rætur Breiðarfjalls og Ólafsfjarðarfjalls með útsýni yfir Fljótaá, sem rennur til sjávar í Fljótavík.

Bandaríska ferðaþjónustufyrirtækið Eleven Experience starfrækir hótelið, en fyrirtækið rekur meðal annars lúxus-gististaði í frönsku Ölpunum, Patagóníu í Chile og í Klettafjöllunum í Colorado í Bandaríkjunum.

Orri Vigfússon, sem oft er kenndur við Verndarsjóð villtra laxastofna (NASF), er einn af stjórnarmönnum verkefnisins í Fljótunum. Orri hefur um árabil leigt Fljótaá en þar veiðast árlega 100 til 200 laxar og oft gríðarmikið af bleikju, bæði sjógenginni og staðbundinni.

„Ég vil síður kalla þetta hótel," segir Orri um nýja gististaðinn, sem í bæklingi Eleven Experince er kallaður Deplar Farm. „Í mínum huga er þetta sveitasetur með miklum lúxus. Húsið er um 2.500 fermetrar og í því eru 12 svítur, þar af er mætti segja að ein svítan sé nokkuð stór og hugguleg íbúð. Gert er ráð fyrir að allt að 28 gestir geti gist á staðnum."

Það verður ekki ódýrt að gista í sveitasetrinu að Deplum því samkvæmt upplýsingum frá Eleven Experince kostar ódýrasta nóttin 1.750 dollara eða 217 þúsund krónur. Orri segir að á setrinu sé fullkomið spa og líkamsræktarsalur með innisundlaug. Fyrir utan sé önnur laug, þar sem gestirnir geti slakað á eftir ævintýri dagsins. „Á sveitasetrinu er líka bíósalur, sem og risastór bar og salur til tónleikahalds,“ segir Orri.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Undirritun viljayfirlýsingar vegna stórskipahafnar í Finnafirði frestast.
  • Afkoma erlendra banka hefur farið versnandi.
  • Hagræðing Vodafone er komin langt áleiðis.
  • Varaformaður fjárlaganefndar reiknar með að smíði nýs Herjólfs verði boðin út í maí.
  • Fjórðungsuppgjör Apple bendir til að nú syrti í álinn fyrir tæknirisann.
  • Viðtal við yfirmann hjá þýska stórfyrirtækinu SMS Siemag, sem þróar vélar og búnað fyrir Silicor Materials.
  • Ákvæði um markaðsinngrip og rannsóknir gætu stangast á við stjórnarskrá.
  • Fyrirtækið True Viking framleiðir ilmvatn á Ísafirði.
  • Conor McGregor tilkynnti um að hann hyggðist leggja hanskana á hilluna.
  • Grafín er sterkasta efni sem vitað er um og gæti valdið tæknibyltingu.
  • Svipmynd af Helga Jóhannssyni, formanni Samorku.
  • Ítarlegt viðtal við Hörð Gunnarsson, framkvæmdastjóra Iceland Travel.
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs sem fjallar um Vilhjálm Þorsteinsson og aflandsfélög.
  • Óðinn fjallar um frelsi utan Evrópusambandsins.