Evrópski flugvélaframleiðandinn Airbus hefur skv. frétt Financial Times kynnt nýja flugvél fyrir helstu viðskiptavinum sínum í því augnamiða tryggja pantanir þannig að framleiðsla vélanna geti hafist. Blaðið greinir jafnframt frá því að líklega verði nýja vélin kynnt opinberlega í næstu viku á flugsýningu í París.

Vélin er sögð byggja á A321 vél Airbus en með umtalsvert lengri flugdrægni og er kölluð A321XR. Vélin á að geta tekið á loft í Miðríkjum Bandaríkjanna og flogið til Meginlands Evrópu án þess að millilenda á leiðinni.

Ef pantanir verða í samræmi við væntingar gæti vélin verið kominn í loftið árið 2023 eða 2024. Samkvæmt FT hafa flugfélögin Aer Lingus og British Airways nú þegar lýst yfir áhuga á vélinni.

Boeing hafði í hyggju að hefja framleiðslu á nýrri vél sem líkt og A321XR væri með umtalsvert meiri flugdrægni. Þau áform sitja hins vegar á hakanum á meðan fyrirtækið greiðir úr vandræðum 737Max vélanna, sem hafa nú verið kyrrsettar í meira en tvö mánuði og enn óvíst hvenær þær verða aftur komnar í gagnið.