Þegar rýnt er í sölutölur hjá þeim sérverslunum sem selja húsgögn og byggingarvörur í desember síðastliðinn má ætla að hluti landsmanna hafi ekki látið nægja að þrífa heimilið fyrir jólin heldur gengið skrefinu lengra og notið hátíðarinnar með ný húsgögn í stofunni, nýju rúmi í svefnherberginu, endurnýjuðum innréttingum og nýju gólfefni.

Vöxtur einkaneyslu eykst enn hratt, og er nú umfram vöxt kaupmáttar segir Rannsóknarsetur verslunarinnar í Háskólanum á Bifröst. Fjárfestingargleðin endurspeglast meðal annars í kaupum á varanlegum neysluvörum eins og húsgögnum.

Ætla má að margir hafi notið þess að hvíla sig í nýju rúmi yfir nýliðin jól og nýju sófasettin hafa eflaust notið sín í jólaboðunum. Velta húsgagnaverslana í desember var 14% meiri að raunvirði en í desember árið áður.

Velta í sölu rúma jókst í mánuðinum um 15,8% frá sama mánuði árið áður. Þá virðist sem fjárfest hafi verið duglega í skrifstofuhúsgögnum, því sala þeirra jókst um 10,5% frá desember í fyrra að raunvirði. Verðlag húsgagna hefur farið lækkandi undanfarin misseri og var 11,2% lægra í desember síðastliðnum samanborið við sama mánuð 2016.

Byggingavöruverslanir njóta einnig góðs af nýbyggingum og endurnýjun húsnæðis. Í desember var velta í byggingarvöru 12% meiri að raunvirði (magni) en árið áður. Þar af jókst velta gólfefna um 16,5% á sama tólf mánaða tímabili.