Stefnt er að því að stjórnarsáttmáli og ráðherraskipan ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna verði kynnt á  sunnudag. Þetta kemur fram á mbl.is og visir.is.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir við Vísi að morgundagurinn fari í að kynna stjórnarsáttmálann fyrir flokksstofnunum.

Stjórnarmyndunarviðræður hafa staðið yfir frá lokum kosninganna 25. september en beðið var niðurstöðu um endanleg kjörbréf þingmanna vegna talningaklúðursins í Norðvesturkjördæmi. Alþingi samþykkti í gær kjörbréf allra þingmanna með meirihluta greiddra atkvæða.