Errea sem framleiðir landsliðstreyjur íslenska landsliðsins kemur með nýja sendingu af treyjunni til landsins á föstudaginn. Kemur svo önnur sending vikuna þar á eftir. Stefnir félagið að því að koma treyjunum hratt og vel í verslanir, en þær hafa verið uppseldar víðast hvar.

„Eftir glæsilegan sigur Íslendinga á Englendingum hefur fjöldi fyrirspurna borist til okkar, en vegna gríðarlegs álags á símkerfi okkar höfum við því miður ekki náð að svara öllum símtölum. Unnið hefur verið markvisst að því að tryggja fleiri treyjur til landsins.
Samstaða Íslendinga er engu lík og það er stórkostlegt að fá að taka þátt í þessu ævintýri. Takk kæru landsmenn fyrir ykkar þátt - Áfram Ísland,“ segir í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu.