Öryggismiðstöðin hefur í samstarfi við Sameind rannsóknarstofu opnað nýja COVID-19 skimunarstöð í Kringlunni 7, þar sem Fjallakofinn var áður til húsa. Þar eru framkvæmd COVID-19 skyndipróf. Um er að ræða svokallað Antigen skyndipróf sem skila afar nákvæmri niðurstöðu á aðeins 15 mínútum. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Þetta er þriðja skimunarstöðin sem Öryggismiðstöðin opnar á undanförnum vikum en fyrir eru stöðvar við Aðaltorg í Reykjanesbæ, skammt frá Leifsstöð, og á BSÍ í Reykjavík.

„Þetta er stærsta skimunarstöðin af þeim þremur sem við höfum opnað að undanförnu. Í grunninn er þessari stöð ætlað að þjónusta ferðalanga sem þurfa vottuð Covid próf til ferðalaga milli landa en ef kallið kemur getum við þjónustað stóra hópa t.d. vegna tónleika eða annarra menningarviðburða innanlands. Við rekum stöðvarnar með Sameind og erum með leyfi heilbrigðisyfirvalda til útgáfu vottorða um niðurstöður COVID-19 prófa," ef haft eftir Ómari Brynjólfssyni , framkvæmdastjóra AVIÖR, sem er svið innan Öryggismiðstöðvarinnar, og sér um rekstur skimunarstöðvanna.

Hafa tekið yfir milljón Covid-19 skimanir

Prófið er framkvæmt með stroku í nefkok og niðurstaða er send með QR kóða í tölvupósti til viðkomandi um leið og hún liggur fyrir.

„Við höfum sérhæft starfsfólk hér á stöðinni sem sér um prófin. Við erum búin að framkvæma yfir milljón skimanir í okkar skimunarstöðvum og í samstarfi við heilsugæsluna á Suðurlandsbrautinni og í flugstöð Leifs Eiríkssonar þannig að það er komin gríðarleg reynsla hjá okkar starfsfólki. Við erum að þjónusta ferðamenn en einnig Íslendinga sem eru að ferðast eða fara á viðburði og vilja setja öryggið á oddinn.

Nú hafa stjórnvöld gefið leyfi til að halda sitjandi viðburði með allt að fimm hundruð manns, án fjarlægðatakmarkana en beðið er eftir frekari útfærslu um notkun hraðprófa. Með nýrri skimunarstöð erum við að undirbúa okkur fyrir stóraukna eftirspurn almennings og mæta menningarlífinu sem þyrstir í að koma frekara viðburðahaldi af stað á ný,“ segir Ómar og bætir við að afar einfalt sé að bóka tíma í hraðpróf á www.testcovid.is og lítil sem engin bið sé í prófin þegar fólk mætir í sinn bókaða tíma á skimunarstöðina.