„Við erum að bjóða nýjung á Íslandi sem eru aðgangsstýrð hjólastæði með snjallaðgangi sem virkar bæði með appi og einnig er hægt að nota almenn RFID aðgangskort eins og t.d. S-kortið frá ÍTR og fleiri kort,“ segir Jónas Björgvinsson, sölu- og þjónustustjóri Hjólalausna.is.

„Lausnin kemur frá Tallinn í Eistlandi og hafa þessi stæði verið í notkun í mörgum löndum bæði í Evrópu og Bandaríkjunum síðan árið 2013. Það eru komnir yfir milljón notendur af þessum stæðum og engu hjóli hefur verið stolið úr kerfinu sem eru talin mjög örugg og notendavæn og eru m.a. með innbyggðu öryggiskerfi.“

Fjörutíu stæði verða sett upp á næstunni Jónas segir að sem dæmi þá sé um 600-900 hjólum stolið á höfuðborgarsvæðinu á ári.

„Reiðhjól eru almennt að verða betri og verðmætari sem raunveruleg samgöngutæki og það er nauðsynlegt að huga betur að innviðauppbyggingu um öruggar og skilvirkar lausnir í þessum málum ef hjólreiðar eiga að vera raunverulegur þáttur í samgöngum. Reykjavíkurborg hefur fest kaup á alls 40 stæðum sem sett verða upp á næstunni á fjórum stöðum bæði við Ráðhúsið og Turninn við Höfðatorg þar sem skrifstofur Reykjavíkurborgar eru. Einnig verða sex stæði af þessum 40 sérstök hleðslustæði fyrir rafmagnshjól,“ segir hann.

Nánar er fjallað um málið í Verk og vit, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .