Ný stjórn FKA tók við keflinu á aðalfundi FKA sem haldinn var í Elliðaárdal í vikunni. Stjórn FKA er skipuð sjö konum og tveimur til vara. Á aðalfundinum var kosið um þrjú sæti til tveggja ára í stjórn og eitt sæti til eins árs í stjórn. Tvær konur til viðbótar tóku sæti varakonu til eins árs.

Unnur Elva Arnardóttir sem gengt hefur hlutverki varaformanns FKA var endurkjörin í stjórn FKA til tveggja ára og með henni Guðrún Gunnarsdóttir og Dóra Eyland til tveggja ára. Sigrún Jenný Barðadóttir kemur inn sem varakona til eins árs ásamt Írisi Ósk Ólafsdóttur. Elfur Logadóttir var ein í framboð til stjórnar í eitt ár og var því sjálfkjörin.

Stjórnarkonur sem voru hálfnaðar með kjörtímabil sitt í stjórn og halda áfram eru þær Edda Rún Ragnarsdóttir, Katrín Kristjana Hjartardóttir og formaður FKA Sigríður Hrund Pétursdóttir.

Vigdís Jóhannsdóttir hefur lokið tveggja ára stjórnarsetu í félaginu og Elísabet Tanía Smáradóttir lokið ári sem varakona stjórnar FKA.

Stjórn FKA 2022-2023 er sem hér segir í stafrófsröð:

  • Dóra Eyland
  • Edda Rún Ragnarsdóttir
  • Elfur Logadóttir (stjórnarkona í eitt ár)
  • Guðrún Gunnarsdóttir
  • Íris Ósk Ólafsdóttir (varakona til eins árs)
  • Katrín Kristjana Hjartardóttir
  • Sigríður Hrund Pétursdóttir, formaður FKA
  • Sigrún Jenný Barðadóttir (varakona til eins árs)
  • Unnur Elva Arnardóttir

Innan félagsins er Atvinnurekendadeild FKA, LeiðtogaAuður og FKA Framtíð, sjálfstæðar einingar sem skipa eigin stjórn, halda árlega aðalfundi og eigið bókhald. Sex nefndir eru einnig innan FKA sem eru Alþjóðanefnd, Fræðslunefnd, Golfnefnd, New Icelanders, Nýsköpunarnefnd og Viðskiptanefnd og fer stór hluti starfsemi FKA fram innan þessara nefnda.

FKA heldur bæði úti starfi á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðunum með landsbyggðadeildirnar FKA Norðurland, FKA Suðurland, FKA Suðurnes og  FKA Vesturland en landsbyggðadeildirnar vinna saman.

Í dag eru um 1.300 konur í félaginu sem koma úr öllum greinum atvinnulífsins. Fyrir aðalfundinn voru félagskonur hvattar að skrá sig í nefndarstarf og var samþykkt tillaga á aðalfundinum um sex stjórnir nefndanna innan félagsins.