Aðalfundur SagaMedica fór fram þann 19. apríl síðastliðinn og í kjölfarið tók ný stjórn til starfa. Í stjórn sitja sem fyrr Þórður Magnússon, stjórnarformaður og fjárfestir ásamt Sigmundi Guðbjarnasyni, prófessor og einum af stofnendum félagsins. Lilja Dögg Stefánsdóttir er framkvæmdastjóri SagaMedica.

Nýir stjórnarmeðlimir eru þau Björn Aðalsteinsson deildarstjóri viðskiptaþróunar hjá Vistor og fyrrum forstöðumaður sölu- og markaðsmála Actavis í Vestur-Evrópu, Guðbjörg Edda Eggertsdóttir fyrrum forstjóri Actavis á Íslandi og Stefán Jökull Sveinsson fyrrverandi framkvæmdastjóri þróunarsviðs Actavis á heimsvísu.

SagaMedica er fyrirtæki á sviði rannsókna, þróunar og framleiðslu náttúruvara úr íslenskum jurtum. Í tilkynningu frá félaginu segir að miklar áherslubreytingar hafi átt sér stað síðastliðna mánuði og að aukin áhersla verði lögð á vöxt og uppbyggingu dreifileiða í sölu og markaðssetningu erlendis.