Íslenska fyrirtækið NeckCare Holding ehf. selur veflægar greiningar- og endurhæfingarlausnir á hreyfiskaða á alþjóðlegum mörkuðum. Nú nýlega hóf fyrirtækið sölu á fyrstu vörum sínum, sem heita NeckGear og NeckSmart og eru að sögn Þorsteins Geirssonar, framkvæmdastjóra fyrirtækisins, búnaður sem mælir af mikilli nákvæmni þrívíðar hreyfingar höfuðsins.

„Okkur hefur tekist að hanna skýjalausn sem á í þráðlausum samskiptum við hreyfiskynjara sem mæla þrívíðar hreyfingar höfuðs með ótrúlegri nákvæmni. Örsmár búnaður byggður á sömu tækni mun mæla hreyfingar annarra liða líkamans í þrívídd en fyrst um sinn er áherslan á hreyfiskaðamælingum fyrir höfuð og háls. Enginn hefur hlutlæga sýn á hreyfingar sínar og sem dæmi myndu flestir halda að þegar einstaklingur hreyfir höku niður að brjósti sé það gert í beinni línu, en svo þarf ekki endilega að vera. Við mælum m.a. afbrigði af hreyfingu og túlkum útkomu mælinganna á nokkrum mínútum og má segja að við séum sérfræðingar í að túlka bæði hraða og horn þeirra hreyfinga sem um ræðir.  Sumt fólk er t.d. með verki í hálsi og öxlum sökum rangrar höfuðstöðu og slíka þætti komum við m.a. auga á við greiningu á hreyfiskaða."

Þorsteinn segir að salan hafi farið vel af stað.

„Salan byggist á áskriftarkerfi og það eru stöðugt að bætast við nýir áskrifendur. Við erum búin að vera í mikilli og kostnaðarsamri vöruþróun og erum búin að selja vörur okkar  til nokkurra landa, t.d. Slóveníu og Ástralíu. Innan okkar vébanda er mikil þekking og reynsla til staðar og áætla mætti að kostnaður við vöruþróun hafi verið um 600 milljónir króna á núvirði en sem betur fer skuldum við lítið og munum nota fjármunina sem fengust í hlutafjárútboðinu til frekari markaðssóknar. Vegferðin er búin að vera bæði löng og ströng og að baki eru þrjár doktorsgráður, yfir 36 vísindagreinar og heill hellingur orðið til að mjög verðmætri þekkingu."

Hlutafjáraukning styðji við markaðssókn

NeckCare hefur að sögn Þorsteins einkaleyfisverndað vörur sínar í þremur heimsálfum, á markaðssvæði sem telur 1,5 milljarða manna. Þá hafi vöruþróun félagsins að mestu farið fram innanlands.

Í mars síðastliðnum var hlutafé félagsins aukið um 100 milljónir króna með aðkomu innlendra og erlendra fjárfesta auk núverandi hluthafa. Þorsteinn segir að hlutafjáraukningunni sé ætlað að styðja við markaðssókn félagsins. „Þessi hlutafjáraukning mun styðja við markaðssókn og sölu vörunnar. Við höfum unnið hörðum höndum að því að þróa vöruna á vísindalegum grunni og gætt vel að verndun hugverka félagsins en nú erum við að hefja nýjan kafla í þessari vegferð okkar inn á innlenda og erlenda markaði," segir hann.

NeckCare er hægt og rólega að vaxa en nú á dögunum auglýsti fyrirtækið eftir fagaðilum s.s. sjúkraþjálfurum til að sinna framkvæmd greininga á hreyfiskaða með búnaði félagsins. „Fagaðilar munu koma til með að  framkvæma  hreyfiskaðamælingar hér á Íslandi og erlendis. Þeir verða sérfræðingar NeckCare í notkun búnaðarins og munu sjá um mælingar og veita viðeigandi þjónustu," segir Þorsteinn.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .