VesturVerk ehf. hyggst reisa 55 MW vatnsaflsvirkjun í Hvalá í Ófeigsfirði á næstu árum.  „Virkjunin, sem er í nýtingarflokki Rammaáætlunar, mun hafa margvísleg jákvæð áhrif á Árneshrepp. Með virkjuninni mun framboð á hreinni endurnýjanlegri orku aukast en í dag er olíunotkun á Vestfjörðum mikil vegna ónógrar framleiðslu og flutningsgetu raforku á Vestfjörðum. Olía er notuð til raforkuframleiðslu og hitunar fjarvarmaveitna, þegar raforkuafhending bregst. Þegar allt díselafl til raforkuframleiðslu er í gangi á Vestfjörðum eru brenndar um 600 tunnur af díselolíu eða rúm 120 tonn á sólarhring, með tilheyrandi ónauðsynlegri mengun,“ segir í fréttatilkynningu.

Úrbætur á raforkukerfinu munu einnig fylgja þessari framkvæmd þar sem Hvalárvirkjun yrði tengd nýju tengivirki í Ísafjarðardjúpi. Með slíkri tengingu mun raforkuöryggi Vestfjarða stórbatna, en í dag er öryggið það minnsta á öllu landinu. Á síðasta ári voru sem dæmi 225 truflanir á raforkukerfi Vestfjarða, þar af 150 fyrivaralausar truflanir og árið 2015 voru truflanirnar 205, þar af sjö truflanir sem stóðu lengur yfir en 72 klukkustundir og teljast því umfangsmiklar. Samfélagslegur kostnaður vegna ótryggrar orkuafhendingar á Vestfjörðum er metinn í dag á 500 til 600 milljónir króna á ári. Samgöngur í Árneshreppi munu batna til muna en samhliða virkjanaframkvæmdum mun verða lagður vegur milli Ófeigsfjarðar og Ísafjarðardjúps um Ófeigsfjarðarheiði.

Árneshreppur hélt íbúaþing ásamt Fjórðungssambandi Vestfirðinga og Byggðastofnun um miðjan júní og var niðurstaða þess mjög skýr þ.e. að ef ekki yrði gripið til róttækra aðgerða þá myndi heilsársbyggð í Árneshreppi leggjast af. Bættar samgöngur voru talin mikilvægasta málið fyrir samfélagið, fengu 20 atkvæði, Hvalárvirkjun næst mikilvægasta, fékk 17 atkvæði, en önnur mál fengu sjö atkvæði eða færri. Það er því ljóst að íbúar binda vonir við þau tækifæri sem virkjun Hvalár mun skapa fyrir svæðið í tengslum við atvinnusköpun, bætt fjarskipti, bættar samgöngur, ferðaþjónustu og fleira.

„Við teljum að Hvalárvirkjun muni hafa jákvæð áhrif á íbúa samfélagsins, sem í dag horfa fram á að byggð muni leggjast af innan fárra ára verði ekkert gert,“ segir Ásgeir Margeirsson, stjórnarformaður VesturVerks og forstjóri HS Orku. „Forsvarsmenn Vesturverks og HS Orku leggja mikið upp úr því að vinna í sátt við náttúruna, samfélagið og umhverfið. Þarna geta orkuvinnsla og ferðamennska farið mjög vel saman og í góðri sátt eins og svo víða annars staðar, hér á landi sem erlendis.”