Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq Iceland hækkaði um 0,27% í 5,8 milljarða viðskiptum dagsins og stendur hún nú í 1.910,55 stigum. Aðalvísitala Skuldabréfa hækkaði einnig í dag, eða um 0,14% í 5,3 milljarða viðskiptum, og stendur hún nú í 1.290,95 stigum.

Nýherji og Eimskip hækkuðu mest

Nýherji hækkaði mest í viðskiptum dagsins, eða um 3,25% í tæplega 37 milljón króna viðskiptum og fæst nú hvert bréf félagsins á 31,80 krónur

Næst mest hækkun var á gengi bréfa Eimskips, eða 1,68% í 207 milljón króna viðskiptum sem færði gengi bréfa félagsins upp í 332,00 krónur.

Icelandair og VÍS lækkuðu mest

Bréf Icelandair lækkuðu mest í kauphöllinni í dag, eða um 1,86% í 496 milljón króna viðskiptum og er gengi bréfanna nú 15,85 krónur. Næst mest lækkun var á gengi bréfa VÍS, eða um 0,94% en félagið hefur verið nokkuð í fréttum undanfarna daga. Viðskiptin með bréf félagsins námu 84 milljónum króna.

Langmestu viðskiptin voru með bréf Marel hf, eða fyrir tæpa 3,7 milljarða, en eins og Viðskiptablaðið greindi frá fyrr í dag seldi Eyrir Invest bréf í félaginu í dag fyrir 3,5 milljarða. Gengi bréfanna hækkaði samt sem áður eða um 0,70% og er það nú 360,00 krónur.