Harpa, tónlistar- og ráðstefnuhús hefur valið Nýherja sem samstarfsaðila í upplýsingatækni. Nýherji mun þjónusta Hörpuna í hýsingu og utanumhald helstu kerfa, rekstur þráðlauss nets hússins og almenna tæknilega aðstoð við starfsólk Hörpu. Nýherji hefur þjónustað Hörpu frá því að húsið var tekið í notkun en nú hefur verið gerður samningur til næstu ára.

Finnur Oddson forstjóri Nýherja segir að ,,Það er okkur mikill heiður að fá að þjónusta áfram þetta áhugaverða og síbreytilega fyrirtæki sem Harpa er. Kerfi hússins þurfa að geta þanist út og skroppið saman í takt við þá viðburði sem haldnir eru þar hverju sinni. Það er því krefjandi en jafnframt afar skemmtilegt verkefni að vinna með leiðandi fyrirtæki í ráðstefnuhaldi og listalífi okkar landsmanna,"

„Við sem störfum í Hörpu gerum þá kröfu að búa við hnökralausa upplýsingatækni hvern dag til þess að ótrúlega fjölþætt starfsemi hússins gangi upp. Það er því mikilvægt að samstarfsaðili okkar í upplýsingatækni skynji það og hafi getu til að standa vaktina með okkur. Við höfum góða reynslu af Nýherja og erum bjartsýn á áframhaldandi tæknilegt samstarf næstu árin," segir Halldór Guðmundsson forstjóri Hörpu tónlistar- og ráðstefnuhúss Reykjavíkur.