Fyrr á þessu ári urðu breytingar á eignarhaldi Íshesta ehf. Eigendur hestaleigunnar Gáska sem stofnuð var á síðasta ári keypti þá Íshesta af Kviku fjárfestingarbanka en eigendurnir eru Magnús Sch. Thorsteinsson, Jón Örn Guðmundsson, Gunnar Kjartansson, Gunnar Ingimundarson og Einar Axelsson. Félögin verða í framhaldinu sameinuð undir nafni Íshesta. Nýr framkvæmdarstjóri sameinaðs félags er Sólborg Bjarnadóttir. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Aðrir lykilstarfsmenn eru Margrét Gunnarsdóttir sem sér um rekstur hesthúss, Gunnar Kjartansson gæða- og rekstrarstjóri og Jenný Maggý Rúriksdóttir markaðsstjóri. Öll hafa þau unnið um lengri eða skemmri tíma við hestatengda ferðamennsku.

Íshestar voru stofnaðir árið 1982 af Einari Bollasyni og fleirum og er því eitt elsta starfandi félag í þessari grein hérlendis, er þekkt vörumerki og hefur verið leiðandi á markaðnum. Glæsileg Hestamiðstöð Íshesta var opnuð árið 2000 í Hafnarfirði. Öll aðstaða er þar eins og hún best gerist. Hestamiðstöðin er staðsett í einstöku umhverfi með fallegum reiðleiðum.

„Við ætlum okkur að efla starfsemina enn frekar á næstu misserum með því að bjóða upp á nýja og fjölbreyttari þjónustu hjá Íshestum. Það eru miklir möguleikar í hestatengdri ferðaþjónustu og búum við að góðu og reynslumiklu starfsfólki. Fjöldi erlendra gesta hefur aukist jafnt og þétt í gegnum árin hjá Íshestum og Íslenski hesturinn hefur alla tíð haft mikið aðdráttarafl fyrir þá. Þeir eru fyrst og síðast að leita eftir ákveðinni upplifun og það er eftirminnileg reynsla að fara ríðandi um fallega náttúru Íslands hvort heldur sem er að sumri eða vetri“ segir Sólborg Bjarnadóttir framkvæmdastjóri.