„Okkur fannst einfaldlega vanta aðstöðu á Kópavogssvæðinu þar sem ung og upprennandi fyrirtæki, með tvo til tíu starfsmenn, gætu komið sér fyrir á fallegum skrifstofum. Við ákváðum því að setja upp aðstöðu í Engihjallanum þar sem við bjóðum nú upp á slíka heildarþjónustu, þú kemur bara með þinn skrifborðsstól og tölvu og öll önnur aðstaða verður fyrir hendi þegar þú mætir á svæðið,“ segir Gunnar Bachmann sem nýverið stofnaði fyrirtækið E8 Fyrirtækjasetur ásamt Gunnari Leó Gunnarssyni.

Gunnar segir að fyrirtækið sem nýlega tók til starfa hafi strax fengið góðar viðtökur. „Í heildina höfum við ellefu rými til umráða og við höfum nú þegar leigt fimm þeirra út en við byrjuðum fyrst að auglýsa starfsemina fyrir viku síðan. Þetta hefur einfaldlega spurst hratt út til þeirra sem vantaði húsnæði.“

Gerðu rýmið næstum fokhelt

Gunnar segir þá félaga hafa tekið húsnæðið við Engihjalla algjörlega í gegn frá a-ö þannig að það hafi á tímabili komist nálægt því að vera fokhelt.

„Við erum búin að vera í heilt ár að breyta húsnæðinu, hreinsuðum allt út og byrjuðum svo að byggja upp á nýtt. Húsnæðið var algjörlega tekið í gegn frá a-ö og allar framkvæmdir hafa miðað að því að hafa þetta sem nútímalegast skrifstofurými. Til dæmis með þeirri nýjung að nefna hvert skrifstofurými eftir helstu borgum heimsins, París, Kúala Lumpur, London, Shanghai o.s.frv. Aðgengi að hverju skrifstofurými er tölvustýrt og er m.a. boðið upp á fullbúna fundaraðstöðu, eldhús og sturtu,“ útskýrði Gunnar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðninu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.