Ný hönnun Hagkaupsverslana í Smáralind og Kringlunni hefur farið sigurför um erlendar hönnunarhátíðir undanfarnar vikur segir í fréttatilkynningu.  Hönnunin var tilnefnd til fjögurra alþjóðlegra hönnunarkeppna og komst í úrslit í þremur þeirra.  Til að bæta um betur vann hönnunin silfur í einni keppni og gull í annarri.

Breytingarnar hófust i Smáralind árið 2016 þegar ákveðið var að taka nýja nálgun á útlit og vöruúrval og tókust breytingarnar svo vel að verslun Hagkaups í Kringlunni fylgdi í kjölfarið.  Hönnun Hagkaupsverslanana vann til silfurverðlauna í DBA Design Effectiveness Awards fyrir áhrifamestu breytingar á verslun.

Og nú hafa borist nýjar fréttir af sigurför hönnunarinnar. Gull féll Hagkaup í skaut í The Transform Awards Europe, en þar vann hönnunin fyrir Bestu upplifun á vörumerki, Best Brand Experience. Hönnun Hagkaupsverslananna hefur verið tilnefnd til fjögurra alþjóðlegra verðlauna og hafði úrslit, annað og fyrsta sæti upp úr krafsinu.

„Þetta er mikil viðurkenning fyrir okkur, en við vissum um leið og við sáum teikningarnar af nýju verslununum að þetta myndi ganga,” segir Gunnar Ingi Sigurðsson, framkvæmdastjóri Hagkaups. „Við fengum líka mikil viðbrögð frá viðskiptavinum okkar og nú bætast viðurkenningar erlendis frá við.“