Time Inc., eigandi Time, Fortune og People tímaritanna hefur gengið frá kaupunum á Viant, móðurfyrirtæki MySpace. Joe Ripp, forstjóri Time, sagði að um tímamótaviðburð væri að ræða, en kaupverðið var ekki uppgefið.

Þessi kaup kunna að hljóma undarleg í ljósi þess að notendur MySpace eru í dag afskaplega fáir. Þrátt fyrir að hafa verið fyrsti vinsæli samfélagsmiðillinn þurfti MySpace að lúta í lægra haldi gegn öðrum miðlum á borð við Facebook og Twitter. Hins vegar snúast kaup Time að öllu leyti um gögn.

Auglýsingafyrirtækið Specific Media, sem einnig er í eigu Viant, keypti MySpace fyrir 35 milljónir punda árið 2011. Seljandinn á þeim tíma var News Corp, fyrirtæki Rupert Murdoch, sem hafði keypt MySpace af stofnanda sínum á 580 milljónir dollara árið 2005.

Með kaupunum á MySpace komst Viant yfir gagnagrunn sem telur yfir milljarð skráða notendur. Jafnvel þó einhverjir þessara notenda hafi skipt um tölvupóstfang frá þeim tíma er þarna um að ræða fjársjóð fyrir gagnavinnslu.

Talað er um svokölluð fyrstu-persónu gögn, sem þykja vera hinn heilagi kaleikur í auglýsingum á veraldarvefnum. Þannig vita auglýsendur að þeir eru að auglýsa nákvæmlega til þess neytanda sem þeir vilja að sjái vöruna frekar en að reikna út líkur á því að réttur markhópur sjái auglýsinguna.