Norska lágfargjaldaflugfélagið Norwegian hefur ráðið Jabob Schram sem nýjan forstjóra félagsins. Hann tekur við stöðunni af Björn Kjos, stofnanda Norwegian, sem lét af störfum í júlí síðastliðnum en frá þeim tíma hefur Geir Karlsen, fjármálastjóri verið starfandi forstjóri félagsins en hann mun aftur taka við fyrra starfi. Þetta kemur fram í frétt Reuters .

Schram starfaði áður hjá ráðgjafafyrirtækinu McKinsey, en honum er ætlað að leiða yfirstandandi endurskipulagningu á rekstri Norwegian sem er í dag er þriðja stærsta lágfargjaldaflugfélag Evrópu. Áður en Schram gekk til liðs við McKinsey leiddi hann skráningu Statoil Fuel & Retail á hlutabréfamarkað árið 2010 en fyrirtækið var bensínstöðvaarmur norska ríkisolíufyrirtækisins Statoil.

Norwegian hefur átt í töluverðum vandræðum á síðustu misserum en undir stjórn Geir Karlsen hefur félagið þurft að afla aukins lausafjár, fresta afborgunum á lánum, selja eignir auk þess sem félagið hefur hætt starfsemi á flugleiðum sem ekki hafa reynst arðbærar.