Sunna Axelsdóttir, lögmaður er nýr viðskiptastjóri hjá Orange Project/Regus á Akureyri þar sem hún mun halda utan um daglegan rekstur skrifstofuhúsnæðis Orange/Regus í Skipagötu 9, að því er segir í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu. Sunna er héraðsdómslögmaður og sinnir jafnframt almennum lögmannsstörfum á stofu sinni, Ási lögmannsstofu, sem er til húsa í Skipagötuni.

Sunna lauk B.A. prófi í lögfræði frá Háskólanum á Akureyri 2010 og fjallaði í B.A. ritgerð sinni um lagalegan grundvöll sambands íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar. Hún lauk M.L. gráðu frá sama skóla 2012 með meistaraprófsritgerðinni Afplánunarúrræði sakhæfra barna og skyldur Íslands að þjóðarétti. Þá hefur hún lokið námskeiði í vátryggingarétti hjá Endurmenntun Háskóla Íslands. Sunna hefur um árabil tekið virkan þátt í starfi Hjálparsveitarinnar Dalbjargar og situr í stjórn sveitarinnar.

Aðgangur að skrifstofum um allan heim

Í vor hóf Orange Project samstarf við alþjóðlega skrifstofurisann Regus og þar með varð Ísland hluti að víðfeðmu neti Regus sem teygir sig út um allan heim með yfir 3000 starfsstöðvum í 900 borgum, 120 löndum og setustofum á 800 flugvöllum auk þess sem viðskiptavinir Regus hafa aðgang að 18 milljónum heitra WiFi-reita um víða veröld, meðal annars á hótelum og flugvöllum.

Regus er með þrjár milljónir viðskiptavina sem opnaðist með samningnum aðgangur að skrifstofuhúsnæði á Íslandi um leið og íslenskir viðskiptavinir Orange Project/Regus fá að sama skapi greiðan aðgang að aðstöðu Regus út um allan heim.

Laus skrifstofurými fyrir norðan

Orange/Regus opnaði skrifstofuleigu sína á Akureyri í ársbyrjun og býður þar upp á 15 fullbúin skrifstofurými auk opinna rýma og fyrsta flokks fundarherbergis, en félagið tekur fram í tilkynningunni að þar séu laus herbergi strax í dag. Öll umgjörð Skipagötunnar miðast við að viðskiptavinir Orange/Regus fái bestu mögulega þjónustu hvort sem þeir eru með samning til lengri tíma, skammtímaleigu eða nýta aðstöðuna þegar þeir eiga leið um Norðurland.

Allir viðskiptavinir Orange/Regus, hvort sem þeir eru með aðstöðu í Reykjavík eða á Akureyri, hafa aðgang að skrifstofurými á öllum starfstöðvum Orange Project/Regus.