Í dag eru yfir 150 vörur í vörulínu Tulipop, en vörurnar selur Tulipop í eigin verslun á Skólavörðustíg í Reykjavík, í 25 verslunum hér á landi eins og Fríhöfninni, Epal, Eymundsson og víðar, sem og í netverslun sinni og í sérvöruverslunum erlendis.

Helga Árnadóttir framkvæmdastjóri Tulipop segir að auk þess að selja vörur sem fyrirtækið framleiði sjálft, hafi fyrirtækið nýlega hafið að gera svokallaða nytjaleyfissamninga um framleiðslu á Tulipop varningi. Segir hún til dæmis Hello Kitty framleiða flestan varning sinn þannig, en japanska fyrirtækið selur fyrir yfir 100 milljarða króna á ári .

„Nytjaleyfisbransinn er stóra vaxtartækifærið, en markaðurinn er gríðarstór og nema tekjur af nytjaleyfissamningum á heimsvísu tífaldri vergri þjóðarframleiðslu Íslands. Nytjaleyfissamningar virka þannig að við seljum framleiðendum réttinn á því að fá að framleiða ákveðnar tegundir af Tulipop varningi og selja á tilgreindum markaðssvæðum. Okkar framlegð er mjög góð af þessum samningum því þó við fáum minna fyrir hverja vöru sem seld er berum við lítinn kostnað á móti,“ segir Helga.

„Við gerðum fyrir tveimur árum samning um framleiðslu á Tulipop böngsum við bandarískt fyrirtæki sem heitir Toynami sem sérhæfir sig í að búa til bangsa og plastfígúrur. Þeir eru með hönnuði innanhúss sem gera ekkert annað en að hanna bangsa, sem hafa unnið náið með Signýju og hönnunarteyminu okkar í að teikna þá upp, gera þrívíddarmódel og slíkt. Þeir bera kostnaðinn af hönnunarferlinu, þeir sjá um framleiðsluna, og eiga lagerinn, auk þess eru þeir með góð tengsl við verslanir í gegnum sitt eigið dreifingarnet. Þessar vörur fóru í sölu í 300 búðum í Bandaríkjunum, en í kjölfarið gerðum við samninga við nokkra aðra framleiðendur sem fóru í sölu í sömu keðju. Það er magnað að sjá sölutölurnar, það seldust 8 þúsund bolir á tveimur mánuðum, og yfir 20 þúsund barmmerki og nælur, svo það er ljóst að eitthvað er það sem heillar við karakterana. En það fer ekkert á markað án þess að við samþykkjum það.“

Bíða þar til réttindin verða verðmætari

Helga segir að enn sem komið er sé þetta lítill hluti af tekjum fyrirtækisins en félagið hafi ákveðið að bíða með gerð fleiri nytjaleyfissamninga þar til nær dregur sýningu sjónvarpsseríunnar sem fyrirtækið gerði í sumar samning að andvirði 700 milljóna um. Hún segir mikilvægasta atriðið í samningnum við franska fyrirtækið Zodiak Kids vera að Tulipop heldur öllum réttindum yfir hugverkinu.

„Réttindin verða miklu verðmætari þegar við verðum komin með sjónvarpsseríu á skjái út um allan heim sem opnar gríðarlega möguleika. Því viljum við ekki núna gera samninga sem leyfa einhverjum að framleiða til dæmis Tulipop náttföt næstu fimm árin út um allan heim, því þá náum við ekki að selja réttindin á góðu verði og því viljum við heldur bíða,“ segir Helga sem bendir á að flestar Hello Kitty vörurnar séu til dæmis framleiddar eftir svona samningum.

„Við erum með fjóra grunntekjuliði, það er sala á Tulipop-varningnum sem við framleiðum sjálf, það eru lamparnir, skólatöskur, vatnsbrúsar, matarstell, hnífapör, límmiðar og margt fleira, sem er hátt í helmingur tekna okkar í dag. Heildarveltan okkar í ár stefnir í einhverjar 150 milljónir, en var 80 milljónir á síðasta ári. Þessi hluti rekstrarins er að vaxa um 60% á milli ára, en þar af er netverslunin að aukast mikið, en hafa ber í huga að þar sem mestallur varningurinn okkar kostar svona tvö til þrjú þúsund krónur er mikill fjöldi vara á bak við þessar tekjutölur.

Síðan koma um 10% frá afþreyingarefni, þá bæði auglýsingatekjur af YouTube rásinni og verkefnatekjur frá gerð sjónvarpsseríunnar. Enn sem komið er eru tekjurnar af nytjaleyfasamningnum bara um 5%, og svo erum við líka með dótturfyrirtæki sem heitir Trix vöruþróun, en þaðan kemur restin af tekjunum. Þar erum við að nýta okkur hönnunar- og framleiðslutengsl til að framleiða vandaðar gjafavörur fyrir stærri íslensk fyrirtæki.

Til dæmis höfum við verið að vinna mikið fyrir Arion banka, þar sem við gerðum sérstakan ævintýraheim sem heitir Spariland, og fjölbreyttar vörur fyrir krakka sem eru í viðskiptum við bankann, svo sem sparibauka, bakpoka og fleira. Síðan höfum við mikið verið að vinna fyrir VÍS í gegnum árin, og framleiddum meðal annars vinsælar VÍS-húfur með endurskini, svo að þessu leyti erum við svolítið eins og hugbúnaðarfyrirtæki sem sinnir ákveðnum verkefnum í útseldri vinnu.“

Vill karlkyns umsækjendur

Meðan á framleiðslu teiknimyndaþáttanna stendur er fyrirtækið á fullu í undirbúningi. „Við erum tilbúin að láta allt gerast hratt og keyra á nytjaleyfissamninga þegar þættirnir fara í sýningu fyrir lok árs 2020, en markmiðið er að þeir fari í framleiðslu á næsta ári. Auk okkar fimm sem störfum hérna á skrifstofunni í fullu starfi þá hefur það reynst okkur vel að fá til liðs við okkur erlenda ráðgjafa,“ segir Helga. Í dag starfa einungis konur hjá Tulipop og segir Helga að almennt hafi umtalsvert fleiri konur sótt um störf hjá fyrirtækinu en karlar, og hvetur karlmenn til að sækja líka um.

„Við höfum verið afar lánsöm með að hafa fengið góða fjárfesta með okkur í lið sem hefur gert okkur kleift að þróa Tulipop-ævintýraheiminn og búa til þetta stóra tækifæri sem sjónvarpsserían felur í sér. Við lukum 250 milljóna króna hlutafjáraukningu árið 2016, þegar Frumtak kom inn í fjárfestahópinn, en áður hafði félag í eigu Dóru Bjargar Marinósdóttur fjárfest í félaginu árið 2013. Tulipop var fram til þess tíma í fullri eigu okkar Signýjar en við sáum að frekara fjármagns var þörf til þess að geta nýtt öll þau tækifæri sem voru fyrir hendi.

Því ákváðum við að kynna félagið fyrir Dóru þar sem hún hafði pantað af okkur Tulipop veggmynd stuttu eftir að við stofnuðum félagið og við vissum því að henni líkaði það sem við vorum að gera. Í kjölfar hlutafjáraukningarinnar fórum við á fullt í þróun Tulipop teiknimynda sem hafði lengi verið draumur okkar. Við réðumst í nokkur teiknimyndaverkefni til þess að þróa heiminn og stuðla að því að við gætum náð góðum samningi um framleiðslu á stórri sjónvarpsseríu til alþjóðlegrar dreifingar. Við framleiddum meðal annars fjögurra mínútna stuttmynd í samstarfi við Blink Industries í London, sem er verðlaunað teiknimyndastúdíó, en myndinni var leikstýrt af BAFTA verðlaunahafanum Ninu Ganz.

Einnig hófum við framleiðslu á stuttum teiknimyndum fyrir YouTube og réðum fyrirtækið Wildbrain til að reka YouTube-rásina, en þar er nú að finna tíu stutta þætti sem hafa fengið um 3 milljónir áhorfa. Nú er næsta sería á leiðinni í loftið og verður hún talsett á spænsku, þýsku og rússnesku auk þess sem hún verður sýnd á íslensku á RÚV. Handritshöfundurinn sem vann að YouTube-þáttunum með Signýju heitir Toby Wilson sem hefur skrifað mikið fyrir Cartoon Network, og seríuna Undraveröld Gúnda sem hefur náð vinsældum víða um heim.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .