Perla norðursins er einkahlutafélag, sem stofnað var í kringum náttúrusýningu mun opna næsta sumar í Perlunni í Öskjuhlíð.
Agnes  Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Perlu norðursins, segir að margt mjög hæft fólk komið að uppsetningu sýningarinnar. Unnið sé náið með margmiðlunarfyrirtækinu Gagarín. Andri Snær Magnason og Þorlákur Lúðvíksson sjái um textagerð og Ragnhildur Gísladóttir tónlist. Þá njóti Perla norðursins ráðgjafar frá erlendum fyrirtækjum á borð við Lord Cultural, Bowen Technovation og Xibitz.

„Þessir erlendu aðilar eru gríðarlega framarlega á sínu sviði og hafa unnið að uppsetningu safna um allan heim eins og Náttúrvísindasafnsins í New York, Smithsonian, Guggenheim, og Pushkin safnsins í Rússlandi svo einhver dæmi séu tekin."

Agnes segir að allar breytingar og allt sem verið sé að gera í Perlunni sé unnið í mjög góðu samstarfi við Ingimund Sveinsson, arkitekt hússins.

„Hann er mjög spenntur yfir þessu nýja hlutverki Perlunnar. Þó farið verði í nokkuð viðamiklar framkvæmdir í byrjun næsta árs verður Perlunni aldrei lokað fyrir gestum og gangandi. Það verður til dæmis alltaf opið út á útsýnispallinn."

Beðið eftir ráðuneytinu

Náttúruminjasafn Íslands hefur verið á hrakhólum í mörg ár. Fyrir nokkrum mánuðum buðu forsvarsmenn Perlu norðursins safninu aðstöðu í Perlunni.

„Við erum að bíða eftir svari frá menntamálaráðuneytinu. Við viljum gjarna fá safnið inn í Perluna með alla sína dýrmætu gripi og höfum þess vegna boðið stjórnvöldum 500 fermetra aðstöðu í húsinu endurgjaldslaust."

Fyrr í mánuðinum bárust fregnir af því þar sem veitingahúsið Perlan væri að hætta starfsemi væri verið að segja upp 100 manns í 60 til 70 stöðugildum. Agnes segist gera ráð fyrir því að ríflega 100 manns muni starfa í Perlunni þegar náttúrusýningin og starfsemi henni tengd verður komin á fullt.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .