Bændasamtök Íslands lögðu Hótel Sögu, sem gjarnan er nefnd Bændahöllin, til 250 milljónir króna í nýtt eigið fé og fengu skuldir við Arion banka felldar niður í tengslum við fjárhagslega endurskipulagningu Hótel Sögu ehf. Þetta er meðal samkomulagsatriða í þríhliða samkomulagi. Kjarninn fjallar um málið í dag og bætir við að Arion banki hafi leyst til sín allt hlutafé í Hótel Íslandi, sem var einnig í eigu Bændasamtakanna. Það hefur nú verið selt til nýrra eigenda.

Sindri Sigurgeirsson, formaður stjórnar Bændasamtakanna, vildi ekki upplýsa hversu miklar skuldir Bændasamtökin fengu felldar niður. Um sé að ræða samkomulag sem sé trúnaðarmál á milli samtakanna og Arion banka. „Ég get þó sagt að niðurstaða þessa samkomulags var góð fyrir samtökin og rekstur hótelsins gengur vel. Það er gaman að taka þátt í ferðaþjónustunni núna, mikill uppgangur,“ sagði Sindri.

Bændasamtökin eru fjármögnuð með búnaðargjaldi sem bændur greiða sjálfir, sem hlutfall af veltu sinna afurða. Samkvæmt lögum um búnaðargjöld nema þau 1,2 prósentum af veltu bóndabýla, en draga má búnaðargjaldið frá tekjuskatti. Þá fá Bændasamtökin tekjur m.a. af fjárlögum og fá samtals 492,2 milljónir króna samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2014.