Viðskiptaráð segir að minni afgangur af grunnrekstri og vaxandi umsvif hins opinbera auk þess að forsendur séu of bjartsýnar séu það helsta sem ráðið gerir athugasemdir við í fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar.

Bendir ráðið á að heildarafkoma A-hlutar rekstrarreiknings hins opinbera sé um 8 til 13 milljörðum króna lakari en talað var um í fjármálastefnunni sem samþykkt var fyrir tæpu ári. Heildarafkoman er áætluð 1 til 1,4% a landsframleiðslu á tímabilinu 2018 til 2022, en í spá Hagstofunnar sem byggt er á er gert ráð fyrir meiri hagvexti en eldri fjármálastefna byggði á.

Vafasamt að gera ráð fyrir miklum hagvexti áfram

Segir ráðið vafasamt að byggja grunnstef opinberra fjármála á væntingum um að hagvaxtarskeiðið verði áfram jafnvænlegt og nefna sem dæmi að gert er ráð fyrir að verðbólgan haldist áfram í samræmi við markmið þó gert sé ráð fyrir að launahækkanir séu talsverðar.

Gert er ráð fyrir að þær skili því 2,3% kaupmáttaraukningu, þó framleiðni hafi aukist um rúmlega 1% frá fjármálakreppunni. Ef þessar bjartsýnu spár ganga eftir muni kaupmáttur íslenskra launa vaxa um 17% næstu fimm árin eftir 86% aukningu síðustu 5 ára.

Geti keypt sér tvöfalt dýrari bíl

Aukningin nemi því um 118% á einum áratug sem þýði að íslenskur launamaður geti flutt inn rúmlega tvöfalt dýrari bíl fyrir sama launahlutfall sitt árið 2022 og hann gat 2012. Segir ráðið þar gert ráð fyrir áframhaldandi sterki krónu og hækkandi raungengis og bendir ráðið á að svo virðist sem gengið sé nánast út frá því að söguleg tengsl þessara þátta hafi rofnað.

Varar ráðið við að hættunni á því að hvort tveggja gengi krónunnar og viðskiptajöfnuðurinn geti gefið eftir því gengi krónunnar geti ekki staðið undir viðskiptajöfnuðinum. Nú þegar virðist sem Hagstofan hafi ofmetið viðskiptaafganginn, en gert var ráð fyrir 142 milljarða afgangi árið 2017 en afgangurinn sé 91 milljarður fyrstu 9 mánuðina.

Með hægari fjölgun ferðamanna sé ólíklegt að þjónustuafgangurinn nái að vega upp tæplega 44 milljarða vöruskiptahalla til að ná þeirri spá. Loks lýsir ráðið yfir vonbrigðum með að hið opinbera taki sífellt til sín stærri hluta af verðmætasköpun í landinu, en gert er ráð fyrir að hlutfallið hækki um 1 prósentustig frá árinu 2016 og verði 43% á tímabilinu.

Rauntekjur ríkisins aukist um fimmtung

Seðlabankinn hefur margoft ítrekað að aðhald í ríkisfjármálum hafi slaknað á síðustu árum og veltir ráðið því upp hvort að það muni kynda undir verðbólgu og þenslu. Aukning rauntekna ríkisins vegna mikils hagvaxtar nemur því um fimmtungi.

Hækkandi verðbólga og þensla myndi svo aftur leiða til hærra vaxtastigs en ella, en á miðvikudaginn kynnir Seðlabankinn næstu stýrivaxtaákvörðun peningastefnunefndar. Þrátt fyrir aukin útgjöld ríkisins gerir nýja áætlunin samt sem áður ráð fyrir meiri afgangi af rekstri hins opinbera, sem skýrist nær alfarið af 25 til 40 milljarða krónu betri afkomu af rekstri opinberra fyrirtækja.

Gagnrýnir ráðið að nær engin rök séu færð fyrir þeirri spá, sem sé óásættanlegt og dragi úr trausti á stefnunni. Jafnframt tekur Viðskiptaráð undir ábendingar Fjármálaráðs um að mögulega bætt afkoma fyrirtækja í rekstri ríkissjóðs dragi ekki úr þörf fyrir aðhald í grunnrekstrinum.