Nú hefur Bandaríkjaforseti, í fyrsta sinn í 71 ár, heimsótt japönsku borgina Hiroshima. Það er Barack Obama sem er sá fyrsti til að heimsækja borgina eftir að Bandaríkjamenn beittu kjarnavopnum gegn Japönum upp undir lok seinni heimsstyrjaldarinnar. Washington Post fjallaði um heimsókn Obama til borgarinnar.

Ríflega 140 þúsund manns létust í sprengjunni sem 15 kílótonna kjarnorkusprengjan 'Little Boy' gaf af sér yfir borginni. Veruleg eyðilegging varð á byggingum og innviðum borgarinnar. Skömmu síðar sprengdu Bandaríkjamenn einnig borgina Nagasaki, en mannfall þar var einnig verulegt - um 80 þúsund manns létust.

Í heimsókn sinni talaði Obama um kjarnorkuhættuna sem steðjar að öllum jarðarbúum - og hvatti aðrar þjóðir til þess að losa sig alfarið við kjarnorkuvopn. Bandaríkin búa yfir 4.760 kjarnavopnum eins og stendur en 1.960 þeirra eru reiðubúin til notkunar í hernaði. Á heimsvísu eru kjarnavopn rúmlega 10 þúsund talsins.