Baldvin Már Hermannsson tók í byrjun þessa árs við starfi forstjóra flugfélagsins  Air Atlanta en hann hefur starfað hjá félaginu allt frá árinu 2001. „Ég útskrifaðist úr rekstrarfræði frá Háskólanum á Akureyri árið 2001 eftir að hafa tekið eitt ár af náminu við viðskiptaháskóla í Austurríki. Eins og svo margir á þessum tíma þá var ég kominn með vinnu í banka þegar ég fékk símtal frá flugfélagi sem ég hafði aldrei heyrt um áður, sem var Air Atlanta og spurður um hvort ég væri tilbúinn að fara í þrjá mánuði til Sádi Arabíu. Ég vissi  svo sem  lítið um hvað þetta snerist en ákvað að stökkva á tækifærið áður en ég færi í bankann,“ segir Baldvin spurður um hvernig ferill hans hjá Air Atlanta hófst. „Fyrsti vinnudagur var 11. september 2001 sem var óneitanlega mjög sérstakur dagur til að byrja að vinna hjá flugfélagi. Ég sá hins vegar ekki fram á að þetta yrðu nema í mesta lagi þrír mánuðir.“

Mánuðirnir þrír áttu hins vegar eftir að verða að 18 ára starfsferli innan Air Atlanta sem hefur leitt Baldvin í forstjórastólinn. Eftir mánuðina þrjá í Sádi Arabíu starfaði hann næsta árið í Nígeríu, Frakklandi og Hollandi en árið 2002 fór hann til Malasíu til að stýra flugrekstrarhluta starfsemi félagsins þar í landi og var þar til ársins 2005. Það ár sneri Baldvin aftur heim til Íslands, starfaði fyrst um sinn í söludeild Air Atlanta en árið 2008 tók hann við sem framkvæmdastjóri  sölu- og markaðssviðs og gegndi því starfi allt þar til hann tók við starfi forstjóra nú um áramótin. „Ég þekki því vel til innviða félagsins og hef í raun verið verið ábyrgur fyrir tekjuhlið félagsins, öllum samskiptum við viðskiptavini og, ásamt eigendum og stjórn, flotaþróun félagsins í gegnum tíðina.“

Air  Atlanta á sér merkilega sögu sem nær allt aftur til ársins 1986. Núverandi eigendur félagsins tóku við eignarhaldi þess árið 2008 eftir töluverð rekstrarvandræði árin á undan. Að sögn Baldvins hafa síðustu 11 ár verið mikil rússíbanareið „Það má segja að frá og með 2009 hafi endurfæðing Air Atlanta átt sér stað þar sem félagið hefur verið stöðugt og skilað hagnaði frá þeim tíma, eftir þrotlausa vinnu og endurskipulagningu. Samhliða þeirri vinnu var sett skýr stefna í flotamálum félagsins um að það myndi eignast vélarnar sem það væri að fljúga sem hefur verið  markvisst  unnið að síðan.“

Spurður að því hvernig það hafi komið til að hann tók við starfi forstjóra segir Baldvin að um síðustu áramót hafi eigendur félagsins ákveðið að breyta til og leggja auknar áherslur á fjárfestingar í flugvélum og stefnumótun Flugfélagsins Atlanta og systurfélaga. „Við þessar breytingar steig Hannes Hilmarsson úr forstjórastólnum og tók við hlutverki starfandi stjórnarformanns, og mér var boðið starf forstjóra. Ég er löngu kominn með bæði flugið og Air Atlanta í blóðið þannig ég þurfti ekki að hugsa mig tvisvar um.“

Öðruvísi flugfélag

Baldvin segir að hann hafi tekið við góðu búi þegar hann settist í forstjórastólinn í byrjun árs en nýjum manni fylgja alltaf einhverjar nýjar áherslur og frá áramótum hafa verið gerðar talsverðar breytingar á framkvæmdastjórn og daglegum rekstri félagsins. Eins voru nokkur óveðurský á lofti sem takast þurfti á við. „Við vorum að horfa upp á að flotinn okkar var orðinn óþægilega lítill eða um 13 vélar auk þess sem við vorum að sjá fram á að nýtingin á vélunum fyrir árið í ár yrði alls ekki nógu góð.

Ofan á þetta var settur 5% vörsluskattur á tekjur félagsins í  Sádi  Arabíu frá áramótum sem þýddi einfaldlega 5% tekjutap þar, eða um 6–7 milljónir dollara á ári. Þetta var högg sem við vissum að við þyrftum að bregðast hratt við, enda hefðum við annars horft fram á taprekstur. Við settum okkur strax mjög skýr markmið um hvað við ætluðum okkur. Í fyrsta lagi ætluðum við að fjölga flugvélum. Það er eitthvað sem við höfum unnið náið að með eigendum félagsins og stjórn að og hefur tekist. Við höfum fjárfest í tveimur B747-400 fraktvélum fyrir um 35 milljónir dollara á þessu ári. Sú fyrri er þegar byrjuð að fljúga og sú seinni mun byrja í ágúst. Þetta er mjög stórt skref og við horfum áfram í kring um okkur og leitum að réttum kauptækifærum á réttum tíma og á réttu verði.

Við settum okkur einnig mjög metnaðarfull markmið um hvað við ætluðum að gera til að ná upp nýtingu á bæði vélunum og áhöfnunum hjá okkur. Við erum öðruvísi flugfélag og fáum borgað á flugtímann þannig að þeim mun meira sem við fljúgum því hærri eru tekjurnar. Þetta snýst því um að ná eins mikilli og góðri nýtingu út úr vélunum á sama tíma og við reynum að gera það á eins hagkvæman máta og hægt er, án þess að gefa neitt eftir þegar kemur að gæðum og sveigjanleika

Sveigjanleikinn sem er innbyggður í þetta félag þekkist einfaldlega ekki annars staðar. Það er í raun ótrúlegt að við byrjum kannski mánuðinn með 1.000 tíma á farþegaflotanum hjá okkur. Við búumst við að fljúga kannski 1.300 tíma en endum mögulega mánuðinn með 1.900 tíma. Þetta þýðir að allir þurfa að vera viljugir til að grípa hvert einasta aukaflug sem við fáum sem þýðir oft á tíðum miklu vinnu fyrir okkar fólk en þetta er það sem okkar rekstur snýst um, að hámarka nýtingu flotans. Við erum að fá um 90  aukaflugsbeiðnir  í hverjum mánuði og þetta hefur gengið mjög vel.  Þessi stærsta ógn okkar sem var að við vorum að horfa fram á að 5% af tekjunum okkar í  Sádi  Arabíu myndi gufa upp. Við erum langt komin með að yfirvinna það og eina leiðin til þess er að vera skilvirkari, hagkvæmari og fljúga meira.“

Nánar er rætt við Baldvin í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .