Efnahags og framfarastofnunin (OECD) hefur lagt fram tillögur um endurskipulagningu á skattaumhverfi alþjóðlegra fyrirtækja, sér í lagi stóra tæknifélaga á borð við Google, Facebook, Amazon og Netflix. Financial Times greinir frá þessu og segir tillögurnar eigi að koma í veg fyrir að tæknirisarnir geti fært hagnað á milli landa í því skyni að lækka skattgreiðslur.

Tillögurnar voru birtar í dag en að sögn FT eru þær afrakstur margra mánaða vinnu og samningaviðræðna sem hafi farið fram fyrir luktum dyrum.

Markmið tillagnanna er að hækka skattinnheimtu á stór alþjóðleg fyrirtæki sem eigi mjög arðbær vörumerki og nái helst til stórra tæknifyrirtækja, framleiðenda á lúxusvarningi og bílaframleiðenda.

Þær þjóðir sem munu hagnast mest verði tillögurnar að veruleika eru annars vegar stórþjóðir á borð við Kína, Bandaríkin, Bretland og Frakkland og hins vegar þróunarríki, en tillögurnar munu gera þessum ríkjum kleyft að innheimta meiri skatt af sölu sem eigi sér stað innan landamæra sinna. Hins vegar munu fyrirtækin sjálf, auk skattaskjóla og lágskattaríki eins og Írland, bera skertan hlut frá borði.