Mikill skortur hefur verið á íbúðum, einkum á höfuðborgarsvæðinu, sem m.a. hefur leitt til hækkandi íbúðaverðs. Húsnæðiskostur heimila hefur hækkað langt umfram verðlag og laun sem hefur haft þær afleiðingar að ungt fólk og tekjulágir hafa átt erfiðara með að kaupa eigið húsnæði. Þá ríkir ófremdarástand á leigumarkaði. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu sem skilað hefur verið til Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra.

Skýrslan er unnin af hópi, sem forsætisráðherra skipaði þann 4. desember en hópurinn hóf störf daginn eftir. Hópinn skipuðu fulltrúar heildarsamtaka á vinnumarkaði, fulltrúar sveitarfélaga og fulltrúar forsætis-, fjármála- og efnahags- og félagsmálaráðuneytis. Formenn hópsins voru Anna Guðmunda Ingvarsdóttir, aðstoðarforstjóri Íbúðalánasjóðs, og Gísli Gíslason, hafnarstjóri Faxaflóahafna.

Átakshópurinn hafði það hlutverk að koma með tillögur um það hvernig auka megi framboð á íbúðum og öðrum tillögum um aðgerðir til að bæta stöðu á húsnæðismarkaði. Er vonast til þess að sú vinna sem hópurinn lagði í komi til með að liðka fyrir þeim kjaraviðræðum sem nú standa yfir en um áramótin losnuðu 82 kjarasamningar, því til viðbótar munu 152 samningar losna í mars. Eftir að tillögurnar, sem eru 40 talsins og skipt í sjö flokka, voru birtar hafa aðilar vinnumarkaðarins, beggja vegna borðs, fagnað þeim. Tillögurnar hafa ekki verið kostnaðarmetnar.

Vegna þeirrar stöðu sem komin er upp í kjaramálunum hafði hópurinn stuttan tíma til að koma með tillögur.

„Þetta eru 45 dagar með jólum og áramótum en það sem skiptir mestu er að allir þeir sem við leituðum til voru mjög fúsir til verka,“ segir Gísli Gíslason. „Það var jákvæður andi yfir öllu sem gerir allt léttara þegar tíminn er skammur. Allir skrifuðu undir þessar tillögur án nokkurra fyrirvara. Eðlilega voru mismunandi sjónarmið en ég tel að okkur hafi tekist að hitta á þá þætti sem ættu að geta verið góður samnefnari fyrir alla.“

Hefði átt að byrja fyrr

Spurður hvort ekki hefði þurft að hefja þessa vinnu fyrir löngu síðan svarar Gísli: „Jú, það er nokkuð ljóst. Að vísu var lagt upp með húsnæðissáttmála fyrir nokkrum árum og í síðustu kjarasamningum voru þessi mál rædd en án vafa hefði mátt nýta tímann betur á milli kjarasamninga. Það er kannski líka það sem við erum að ýta á, að það verði samfella í vinnunni framundan og að hún verði ekki endilega bundin við kjarasamninga. Ég held að við séum með ýmislegt sem geti létt þá vinnu því búið er að taka
saman óhemju magn gagna, sem getur nýst vel í framhaldinu. Nú er boltinn hjá stjórnvöldum, sem þurfa að skipuleggja hvert framhaldið verður. Við vonumst auðvitað til að þessi vinna verði til gagns í kjaraviðræðunum og höfum heyrt að þeim hafi verið vel tekið. Mönnum ætti því ekki að vera neitt að vanbúnaði að setja þetta í farveg og koma því til framkvæmda sem mönnum þykir álitlegast.“

Skortur þrátt fyrir mikla uppbyggingu

Að mati átakshópsins liggur óuppfyllt íbúðaþörf nú á bilinu 5 til 8 þúsund íbúðir á landinu öllu. Mikil uppbygging íbúðarhúsnæðis er hins vegar fyrirhuguð á næstu árum og áætlað er að um 10 þúsund íbúðir verði byggðar á árum 2019-2021. Gangi þær áætlanir eftir mun óuppfyllt íbúðaþörf minnka til muna en hún verður engu að síður um tvö þúsund íbúðir í upphafi árs 2022. Í skýrslunni kemur fram að byggja þurfi að meðaltali 1.830 íbúðir árlega á tímabilinu frá 2019 til 2040 til að mæta óuppfylltri íbúðaþörf og þeirri þörf sem skapast hefur á tímabilinu. Ef áætlanir um uppbyggingu frá 2019 til 2021 ganga eftir lækkar talan í 1.580 íbúðir að meðaltali frá árinu 2022.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .