Héraðsdómur Reykjavíkur hefur fallist á kröfu Reykjavík development um að kalla til óháðan matsmann til þess að meta kostnað vegna fornleifarannsókna á lóðinni Austurbakka 2 sem almennt er kölluð Hafnartorg á horni Lækjargötu og Geirsgötu. Ennfremur er Minjastofnun, íslenska ríkinu og Situs ehf. gert að greiða Reykjavík development 300.000 krónur í málskostnað. Sóknaraðila er þó gert að greiða fyrir vinnu matsmannsins.

Dómurinn er hluti af deilu Reykjavík development við Minjastofnun, ríkið og Situs vegna fornleifarannsókna sem tengdust byggingu á reitnum og telur Reykjavik development að fyrrnefndir aðilar séu skaðabótaskyldir vegna fornleifarannsókna á tveimur hafnargörðum á byggingarreitunum sem undir þessa lóð heyra.