Jón Ásgeir Jóhannesson segir það vera óheiðarleika á hæsta stigi þegar rannsakendur halda undan gögnum sem benda til sakleysis þeirra sem ákærðir eru. Hann segir jafnframt að Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu hafi sýnt af sér framgreinda háttsemi við rannsókn á Aurum málinu.

Jón segir einnig að í Bandaríkjunum gætu slíkir rannsakendur átt yfir höfði sér fangelsisdóm. Þetta kemur fram á vefsíðu sem Jón Ásgeir setti nýverið upp til að koma málflutningi sínum á framfæri í ýmsum málum sem að honum snúa.

Ástæða skrifa Jóns Ásgeirs sem voru birt fyrr í dag er viðtal sem tekið var við Grím á Rúv síðastliðinn sunnudag. Þar var yfirlögregluþjónninn spurður um opið bréf sem Jón Ásgeir birti í Fréttablaðinu fyrir þremur árum. Í bréfinu sakaði Jón Ásgeir Grím ásamt öðrum lögreglumanni Svein Ingiberg Magnússyni um óheiðarleika. Í viðtalinu sagði Grímur „í þessari grein sakaði hann mig um óheiðarleika - mér líkaði það ekki,“ og bætti við „ég og Sveinn Ingiberg erum ekki óheiðarlegir og mér líkaði ekki þegar slíkt er sagt opinberlega.“