Eimskip hefur kynnt skipulagsbreytingar en í þeim felast að söludeild áætlunarflutninga hefur verið skipt upp í tvær deildir auk þess sem mannauðssvið hefur verið sameinað kynningar- og markaðsdeild undir nafninu Mannauðs- og markaðssvið. Í tilkynningu segir að breytingarnar eigi að styðja vöxt á flutningakerfi félagsins og vöxt Eimskips á alþjóðavísu.

Eimskip hafa verið að kaupa fyrirtæki erlendis en m.a. festi félagið kaup á Mareco í Belgíu fyrr á árinu líkt og Viðskiptablaðið hefur fjallað um en breytingunum auka skilvirkni sem slíkum kaupum fylgi.

Ólafur William Hand, sem á undanförnum árum hefur gegnt starfi forstöðumanns kynningar- og markaðsdeildar og verið upplýsingafulltrúi félagsins, mun leiða markaðsmál á alþjóðasviði félagsins og flyst aðsetur hans til Hollands. Ólafur sem hefur þótt farsæll í starfi upplýsingafulltrúa mun áfram sinna þeirri stöðu samhliða því að leiða markaðsmál félagsins á alþjóðavísu. Ólafur hefur starfað hjá Eimskip frá árinu 2008 en áður starfaði hann fyrir Ferðamálaráð Íslands með aðsetur í New York. Ólafur er með MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík.

Þá mun Elín Hjálmsdóttir stýra sameinuðu Mannauðs- og markaðssviði en hún hefur á undanförnum árum verið framkvæmdastjóri mannauðssviðs hjá Eimskipi. Þá hefur Hallgrímur Björnsson tekið við starfi forstöðumanns markaðsdeildar en hann hefur starfað hjá Eimskip frá byrjun árs 2016. Elín hefur starfað að mannauðsmálum hjá Eimskip frá árinu 2004. Hún er með MBA gráðu og B.Sc. gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík.

Sigurður Orri Jónsson hefur verið ráðinn í starf forstöðumanns söludeildar útflutnings, strandflutninga og sérverkefna en hann kemur til félagsins að nýja en frá árinu 2015 hefur hann sinnt starfi framkvæmdastjóra sölusviðs hjá Skeljungi. Árin 2003 – 2015 starfaði Sigurður hjá Eimskip, síðast sem framkvæmdastjóri Eimskips í Danmörku með aðsetur í Árósum. Sigurður er með M.Sc. gráðu í International Business Administration og B.Sc. gráðu í Business Administration frá Háskólanum í Álaborg.

Þá mun Sara Pálsdóttir stýra söludeild innflutnings en hún hefur starfað hjá Eimskip frá árinu 2011, fyrst sem rekstrarstjóri Herjólfs og síðar á flutningasviði þar sem hún hefur bæði unnið við sölu og þjónustu. Áður starfaði Sara sem sérfræðingur hjá Reckett Benckiser og hjá Landsbankanum í London. Sara er með M.Sc. gráðu í alþjóðaviðskiptum frá Háskólanum á Bifröst og B.Sc. gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum á Akureyri.