Brett Kavanaugh hlaut staðfestingu öldungardeildar Bandaríkjaþings í embætti hæstaréttardómara í gær, með 50 atkvæðum gegn 48. Dómari hefur ekki verið staðfestur með svo naumum meirihluta síðan á 19. öld.

Kavanaugh – sem er almennt talinn íhaldssamur – var tilnefndur af Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, og studdur af áhrifamönnum innan Repúblíkanaflokksins.

Kavanaugh er fimmti íhaldsmaðurinn sem tekur sæti í hinu níu manna dómsstigi, og tryggir þar með íhaldssaman meirihluta. Skipanin er ævilöng, og hinn 53 ára Kavanaugh er því líklegur til að gegna embættinu næstu áratugina. Vonir margra repúblíkana standa til þess að hinn nýji meirihluti muni veikja réttinn til fóstureyðingar, opinbert regluverk, og hömlur á kaupum skotvopna.

„Ég held að hann verði algjörlega frábær hæstaréttardómari í mörg ár. Mörg ár,“ er haft eftir Trump.

Staðfestingarferlið var óvenju viðburðaríkt og umdeilt og ýtti undir sundrung milli stóru flokkanna tveggja. Meðan á ferlinu stóð var Kavanaugh sakaður um kynferðisbrot af þremur konum, sem hafi átt sér stað meðan hann var í mennta- og háskóla, á 9. áratug síðustu aldar. Kavanaugh neitaði öllum ásökununum staðfastlega.