Hagnaður Ölgerðarinnar Egils Skallagrímssonar eftir skatta fyrir fjárhagsárið 2022, sem lauk í febrúar, var 1,7 milljarðar króna samanborið við 728 milljónir króna árið áður. EBITDA fyrirtækisins jókst úr 2,3 milljörðum í 3,3 milljarða króna á milli ára og var í samræmi við langtímamarkmið fyrirtækisins,“ að því er kemur fram í fréttatilkynningu.

Ölgerðin segist stefna að skráningu á aðallista Kauphallarinnar undir lok þessa mánaðar. Fram kemur að stjórn félagsins hafi tekið ákvörðun í september um að hefja undirbúning að skráningu. „Þetta er í samræmi við stefnu hluthafa og mun skráningin styðja við áframhaldandi vöxt félagsins.“

Ekki er greint frá veltu félagsins en félagið segir að fjárhagsárið hafi einkennst að stórum hluta af góðum vexti, en ekki síður af miklum fjárfestingum í húsnæði og búnaði.

„Það er afar ánægjulegt að sjá niðurstöðuna eftir það erfiða ástand sem skapaðist í kringum Covid og eftirköst faraldursins og við erum einstaklega stolt af þeim árangri sem við náðum á nýliðnu rekstrarári. Eins og áður er það starfsfólkið sem myndar grunninn að þessari velgengni ásamt gæðavörum fyrirtækisins sem Íslendingar þekkja og kunna að meta og nýjungum í vöruþróun,“ segir Andri Þór Guðmundsson , forstjóri Ölgerðarinnar.

„Ný framleiðslulína fyrirtækisins sem reist var á aðeins níu mánuðum fjórfaldar afkastagetuna, er umhverfisvænni og gefur okkur fjölmörg tækifæri til áframhaldandi þróunar í samræmi við vilja neytenda. Þá keyptum við birgjasambönd Ásbjörns Ólafssonar ehf., en það rótgróna fyrirtæki hafði sterka tengingar við neytendamarkað sem styrkti stöðu okkar. Áfram verður lögð áhersla á að viðhalda þeim gæðum sem vörur okkar eru þekktar fyrir og öfluga vöruþróun,“ segir Andri Þór.