Greint var frá því í morgun að Kauphöllin hyggist hætta að birta lista yfir 20 stærstu hluthafa í fyrirtækjum. Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, gagnrýnir ákvörðunina í færslu á Facebook .

„Þetta er eitthvað öfugsnúið. Ef ný persónuverndarlög verða til þess að minnka gegnsæi á hlutabréfamarkaði er þau að vinna gegn heilbrigðum viðskiptaháttum. Það tók áratugi að berjast fyrir því að stærstu fyrirtæki landsins birtu hluthafalista sína. Hörður Sigurgestsson, þáverandi forstjóri Eimskipafélagsins braut ísinn.“ segir í færslunni.

Þá segir hann jafnframt að heilbrigður og öflugur hlutabréfamarkaður sé mikilvægur en forsenda þess er að traust ríki og að traust náist ekki nema gegnsæi sé tryggt.