Minni líkur eru á því að stýrivextir verði hækkaðir í Bandaríkjunum í kjölfar kosningar Donald Trump í stól Bandaríkjaforseta. Áður var talið nokkuð líklegt að seðlabanki Bandaríkjanna kæmi til með að hækka stýrivexti sína í desember.

Markaðir hafa brugðist illa við kosningu Trump og hefur dollarinn veikst, hlutabréf fallið og verð á gulli hækkað vegna óvissu um stefnumál Repúblíkanans. Óvissa á mörkuðum hefur áður haft áhrif á ákvarðanir seðlabankans í Bandaríkjunum til að mynda þegar Bretar kusu um það að ganga úr Evrópusambandinu, fyrr á þessu ári.

Haft er eftir greiningaraðila hjá Moody's Analytics í grein Reuters að líkurnar á því að stýrivextir haldist óbreyttir í Bandaríkjunum aukast í kjölfar kosningar Trump.